Hinir sterku falla

Greinar

Margir dást að föðurlegum aga einræðisstjórnarinnar í Singapúr, þar sem göturnar séu hreinar og fangelsisdómum sé beitt gegn þeim, sem úða málningu á auða veggi. Margir kaupsýslumenn vilja fremur fjárfesta í slíkum ríkjum en hinum, þar sem ríkir lausung lýðræðis.

Samt er slæm reynsla af stuðningi við ríki, þar sem járnbrautarlestir gengu á réttum tíma, og af fjárfestingum í slíkum ríkjum. Þannig fór illa fyrir Þýzkalandi Hitlers og Ítalíu Mussolinis. En menn eiga afar erfitt með að læra af sagnfræðireynslu, þar á meðal kaupmenn.

Þeim er raunar vorkunn, því að margir tízkumenn á sviði stjórnmálafræða hafa hrifizt af meintri festu einræðis- og alræðisríkja. Svo var um bandarísku áhrifamennina Henry Kissinger og Jeanne Kirkpatrick, sem töldu, að kommúnistum yrði aldrei vikið frá völdum.

Skömmu síðar hrundi kommúnisminn í Austur-Evrópu og hefur síðan ekki borið sitt barr. Í ljós kom, að ríki geta staðið afar völtum fótum undir niðri, þótt þau séu slétt og felld á yfirborðinu. Þetta mátti raunar sjá löngu fyrir fall kommúnistaríkja Austur-Evrópu.

Um miðjan áttunda áratuginn hrundu fasistaríkin í Suður-Evrópu, Portúgal, Grikkland og Spánn, og breyttust í lýðræðisríki. Höfðu menn þó áður haldið fram fullum fetum, að lýðræði hentaði ekki fólki í þessum ríkjum. Þau þyrftu á sterkum einræðismönnum að halda.

Margir dáðust mjög að hreinum götum og fínum kapítalisma í stjórnartíð Pinochets í Chile. Síðan hafa Chilemenn losað sig við hann og gengur ágætlega að feta sig í átt til lýðræðis og auðsældar. Þannig hefur þróunin orðið víðs vegar um ríki hinnar Rómönsku Ameríku.

Mesta lýðræðisskrefið hefur verið stigið í Suðaustur- Asíu, þar sem risið hafa nýir efnahagsrisar og tekið upp lýðræðislega hætti. Þannig hefur Japan, Suður-Kóreu og Taívan vegnað vel, meðan ólgan kraumar undir niðri í einræðisríkjum á borð við Indónesíu og Burma.

Einn af sterku mönnunum á líðandi stund er Milosevic, sem stendur völtum fótum í Serbíu. Ef hann hrynur ekki í uppreisninni, sem nú stendur, þá hrynur hann í þeirri næstu eða næstnæstu. Kerfi hans styðst ekki við þjóðarviljann og hlýtur að enda snögglega.

Vesturlöndum ber að reyna að flýta fyrir falli sterkra manna, sem standa í vegi lýðræðis. Þau hefðu til dæmis átt að hafa kjark til að ljúka Persaflóastríðinu, losa heiminn við Saddam Hussein og stofna þrjú ríki Sjíta, Súnníta og Kúrda í stað gerviríkisins Íraks.

Vesturlönd hafa mikinn kostnað af að standa ekki kerfisbundið með lýðræði gegn einræði, alræði og sterkum mönnum. Saddam Hussein er enn að fela eitur- og sýklavopn og framleiða fleiri slík til að grafa undan Vesturlöndum og koma ringulreið af stað með hryðjuverkum.

Þótt sagnfræðin liggi eins og opin bók fyrir hverjum, sem lesa vill, eru utanríkismálafræðingar stórveldanna enn að láta sig dreyma um, að gott sé að styðja við bakið á svokölluðum sterkum stjórnum, sem láti lestir ganga á réttum tíma og sjái um að halda röð og reglu.

Þannig er enn í tízku, meðal annars á Íslandi, að viðra sig upp við alræðisherrana í Kína og reyna að fjárfesta undir verndarvæng þeirra. Það er mjög misráðið, því að Kína er sannkölluð púðurtunna, svo sem greinilega kom í ljós á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Í tvær aldir hefur heimurinn með hléum og bakslögum verið á ljúfri leið til lýðræðis, frelsis og mannréttinda. Lingerða stjórnarfarið reynist þrautseigast allra.

Jónas Kristjánsson

DV