Raunsæismenn hafa unnið sigur á hreintrúarmönnum í Kína. Dengistum hefur loksins tekizt að ryðja Hua Kuo-feng úr sessi flokksformanns og setja Hu Jaobang þar í staðinn. Formannsslagurinn hefur staðið linnulaust síðan í fyrrahaust.
Stuðningsmenn Deng Xiaoping hafa nú öll tögl og hagldir í Kína. Þeir munu vafalaust halda áfram að hreinsa rauðakversmenn og aðra þá, sem líklegir eru til að standa í vegi aukins frelsis og valddreifingar í efnahagsmálum.
Hu er þekktastur fyrir 15 ára harða andstöðu við fyrrverandi þjóðardýrlinginn Mao Dsedung. Hu lenti í útlegð í menningarbyltingunni 1006 og komst ekki inn úr kuldanum fyrr en 1976, þegar Deng lét handtaka ekkju Mao og hennar hóp.
Síðan hefur Hu ekki linnt gagnrýni á síðari ára stefnu Mao og lagt manna mesta áherzlu á efnahagsbyltingu. Sem harðasti Dengisti síðustu ára hefur hann sætt mikilli andspyrnu hreintrúarmanna, einkum innan hersins.
Það er til marks um styrk raunsæishópsins, að hann skuli geta barið í gegn formennsku svona róttæks breytingamanns. Dengistar óttast ekki lengur öfl innan hersins, enda situr Deng þar sjálfur á toppnum og kann tökin.
Þetta skiptir Vesturlönd verulegu máli, því að Dengistar eru hlynntir takmörkuðu varnarsamstarfi gegn heimsvaldastefnu Sovétríkjanna. Þeir eru nú að hefja vopnakaup af Bandaríkjunum og herða landamærakröfur á hendur Sovétríkjunum.
Dæmigerð fyrir þessa þróun er eftirlitsstöðin, sem Bandaríkin og Kína hafa komið upp í Xinjiang í Norðvestur-Kína. Hún á að hlera eldflaugastöðvar Sovétríkjanna við Kortsjnojsk og Sary Shagan. Hún er amerísk að gerð og starfrækt af Kínverjum.
Eftirlitsstöðin kemur í stað þeirrar, sem Bandaríkjamenn misstu, þegar keisarinn í Persíu var hrakinn frá völdum. Óneitanlega er það kaldhæðnislegt tímanna tákn, að þá skuli einmitt Kínverjar koma til skjalanna í staðinn.
Í heilt ár hafa Bandaríkin og Kína tekið bróðurlega við upplýsingum þessarar stöðvar, þótt það sé fyrst nú, að tilvera hennar er játuð. Ekki er hægt að kalla þetta annað en hreint samstarf í hernaðar- og varnarmálum.
Þetta þarf ekki að koma á óvart þeim, sem hafa heyrt kínverska sendiráðsmenn á Vesturlöndum hrósa Atlantshafsbandalaginu í hvívetna og vara Vesturlandamenn við að dotta á verðinum gagnvart sívaxandi yfirgangi Sovétríkjanna.
Atlantshafsbandalagið annars vegar og lausara samstarf Kína, Japans og Bandaríkjanna hins vegar er rökrétt afleiðing yfirgangsins, sem óhjákvæmilega fylgir þeirri forlagatrú Kremlverja, að þeir hljóti og verði að sigra heiminn.
Í Kína er þjóðskipulag gerólíkt okkar á Vesturlöndum. Þrátt fyrir breytingar er það líkara sovézku þjóð- skipulagi, enda er rótin Leníns hin sama. Hér hefur því verið lýst hagkvæmnis-samstarfi, en ekki hugsjóna-samstarfi.
Kína og Bandaríkin starfa saman vegna sérstakra sögulegra kringumstæðna, sem ekki má búast við, að standi endalaust. Samstarfið minnir raunar örlítið á handalag Sovétríkjanna og Bandaríkjanna gegn Þriðja ríki Hitlers.
Eigi að síður er ástæða fyrir okkur að fagna þessu samstarfi. Og einmitt nú er ástæða til að vona, að það endist, unz heimsvaldasinnar hafa látið af trúnni á hina sögulegu nauðsyn heimsvalda einnar efnahagsstefnu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið