Hinum óákveðnu fækkar.

Greinar

Einu nýju fréttirnar úr síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins eru, að óvinsældir stjórnmálaflokkanna hafa minnkað, þótt þær séu miklar enn. Þeim, sem ekki geta gert upp hug sinn til flokkanna, hefur á fjórum mánuðum fækkað úr 39% í 31%.

Að öðru leyti virðist allt sitja við sama í fylgi stjórnmálaflokkanna. Fylgi þeirra hefur haldizt nokkurn veginn óbreytt í fjórum skoðanakönnunum Dagblaðsins á því hálfa öðru ári, sem liðið er kjörtímabilsins.

Samkvæmt könnuninni, sem birt var í gær, hefur fylgi Alþýðuflokksins aukizt um aðeins 0,1 prósentustig síðan í janúar, Sjálfstæðisflokksins um aðeins 0,5 stig og Alþýðubandalagsins um aðeins 1,2 stig, meðan fylgi Framsóknarflokksins hefur minnkað um aðeins 0,3 stig og smáflokka um aðeins 1,5 stig.

Þessar tölur sýna nánast engar breytingar og benda til, að lítil sem engin skekkja sé í skoðanakönnunum Dagblaðsins, svo sem raunar hefur sannazt í samanburði þeirra við kosningaúrslit. Niðurstöður þessara kannana styðja hver aðra.

Framsóknarflokkurinn fékk í síðustu kosningum 25% atkvæða. Í skoðanakönnunum Dagblaðsins síðan þá hefur hann fengið 22-26% fylgi þeirra, sem afstöðu tóku, og nú síðast 24%. Þetta er gífurleg festa í fylgi.

Alþýðubandalagið fékk í síðustu kosningum 20% atkvæða. Í skoðanakönnunum Dagblaðsins síðan þá hefur það fengið 17-20% fylgi þeirra, sem afstöðu tóku, og nú síðast 20%. Þetta er ekki síður athyglisverð festa í fylgi.

Alþýðuflokkurinn hefur í þessum könnunum blaðsins fengið 11-13% fylgi og 11% nú síðast. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið 43-46%. fylgi og 46% nú síðast. Þetta er sama festan í fylgi frá síðustu kosningum.

Tölur Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru svo aftur á móti aðrar en þær voru í síðustu kosningum, þegar Alþýðuflokkurinn fékk 17% atkvæða og Sjálfstæðisflokkurinn 37%.

Þetta styður þá útbreiddu skoðun, að síðustu vikur fyrir kosningar hafi nokkur hópur kjósenda flúið “leiftursókn” Sjálfstæðisflokksins til Alþýðuflokksins, án þess að hinn síðarnefndi geti talið hópinn sér til varanlegrar eignar.

Raunar hefur áður komið í ljós í kosningum, að óljós landamæri eru milli vinstri kants Sjálfstæðisflokksins og hægri kants Alþýðuflokksins. Kjósendur rölta meira um þau en önnur landamæri íslenzkra stjórnmála.

Ekki tekur að gera því skóna, að úrslit næstu kosninga verði í samræmi við nýjustu skoðanakönnun Dagblaðsins. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar fram til þess tíma.

Sérstaklega er óvíst, að Sjálfstæðisflokkurinn geti í kosningum haldið því mikla fylgi, sem hann hefur haft frá síðustu kosningum. Enginn veit nú, hvaða andlit hann mun þá hafa, né hvort andlitin verða eitt eða fleiri.

Á hinum væng stjórnmálanna virðist afstaðan til hersins og Nató hafa lokað landamærunum milli 20% Alþýðubandalagsfylgis og 25% Framsóknarfylgis. Kosningaslagir gætu því í vaxandi mæli verið háðir á landamærum Alþýðu- og Sjálfstæðisflokks.

Til viðbótar við þann slag kemur svo slagurinn um þann þriðjung kjósenda, sem milli kosninga telur sig utan flokka og greiðir atkvæði eftir aðstæðum hverju sinni. Það eru þessir kjósendur, sem setja líf og óvissu í stjórnmálin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið