Sérstakur saksóknari í Hafskipsmálinu telur, að næg rök séu fyrir ábyrgð bankaráðs á lánveitingum Útvegsbankans til að höfða megi mál gegn bankaráðsmönnum. Síðar í vetur munum við komast að raun um, hvernig dómstólar taka á þessu prófmáli um pólitíska ábyrgð.
Hingað til hefur fylgt almennu ábyrgðarleysi stjórnmálamanna, að þeir hafa talið jafngilda hverjum öðrum bitlingi að vera kjörnir í bankaráð. Ef þeir hafa talið sig hafa eitthvert annað hlutverk í ráðinu, hefur það verið fólgið í hagsmunagæzlu, einkum fyrir flokkinn.
Ef nú verður niðurstaðan, að bankaráðsmenn séu hliðstæðir stjórnarmönnum fyrirtækja og beri ábyrgð á verkum framkvæmdastjóra, eru þeir þar með orðnir ábyrgir fyrir hinni útbreiddu spillingu í útlánum bankanna, þar á meðal pólitískri spillingu þeirra.
Ekki er nóg með, að bankar láti annarleg sjónarmið ráða útlánum. Ekki er síður grózkumikið illgresið í garði margvíslegra sjóða, sem standa í útlánum. Við hlið hinna illa þokkuðu ríkisbanka má setja stofnun á borð við Byggðastofnun og sjóði, sem þar eiga heima.
Við stöndum nú í fyrsta sinn andspænis þeim möguleika, að stjórnmálamenn í bankaráðum og sjóðastjórnum beri ábyrgð á þeirri spillingu, sem þeir hafa ákveðið, að skuli vera í þessum stofnunum. Slík niðurstaða getur orðið upphaf nýs og betra siðferðis í lánakerfinu.
Segja má, að núverandi spilling skipti lánsumsækjendum í þrjá flokka. Gildir sú skipting einkum um bankana, en að hluta til einnig um sjóðina. Í neðsta flokki eru þeir, sem geta endurgreitt lán, en fá þau ekki, af því að “engir peningar eru til” að mati bankastjóra.
Í almennum flokki eru svo þeir, sem fullnægja venjulegum kröfum bankakerfisins um veð fyrir lánum. Þeir fá lán, af því að þeir sýna fram á endurgreiðslugetu sína og af því að bankastjórar hafa í andartakinu gleymt hinu fornkveðna, að “engir peningar eru til”.
Í hinum þriðja flokki eru svo þeir, sem fá lánin, sem umsækjendur í fyrsta flokknum hefðu átt að fá. Það eru þeir, sem valda því, að bankastjórar kyrja í síbylju: “Engir peningar eru til”. Þetta eru þeir, sem ekki hafa nægileg veð, en njóta hins vegar velvildar bankans.
Gæðingar bankakerfisins eru ýmiss konar. Þar í hópi eru nánir ættingjar og vinir bankastjóra og bankaráðsmanna, ekki endilega í þeim hinum sama banka, þar sem lánið er fengið. Ennfremur eru þar sveitungar og kjördæmungar bankaráðsmanna í löngum bunum.
Aðallega eru þó gæðingarnir pólitískir. Lán úr bönkum og sjóðum eru hikstalaust veitt út og suður til skjólstæðinga stjórnmálanna. Það eru hin landsfrægu gæludýr. Er þá oft alls ekkert spurt um veð eða aðra endurgreiðslugetu, heldur lánað upp í matsverð eða hærra.
Viðskipti Landsbankans og Sambands íslenzkra samvinnufélaga eru dæmi um inngróna spillingu lánakerfisins. Landsbankinn hefur keypt af Sambandinu á fullu verði ónýta skreiðarpappíra frá Nígeríu. Ennfremur hefur hann lánað því án þess að taka nokkur veð fyrir.
Reynt er að halda öllu slíku leyndu í lengstu lög. Nú er hins vegar svo komið, að fyrirtæki eru að verða gjaldþrota, þar á meðal ýmis af gæludýrunum. Þá kemur í ljós, hvernig bankar og sjóðir hafa lánað þeim langt umfram það, sem eðlilegt og hefðbundið má teljast.
Gjaldþrotafréttir og kærur á stjórnmálamenn fyrir þátttöku í rekstri ríkisbanka og -sjóða beina kastljósi að gegnrotnu fjármálaspillingarkerfi stjórnmálaflokkanna.
Jónas Kristjánsson
DV