Hjálmárdalsheiði

Frá Klyppstað í Loðmundarfirði um Hjálmárdalsheiði til Dvergasteins í Seyðisfirði.

Heiðin er fær hestum, en tæpast klyfjahestum. Stórfenglegt útsýni er úr Fossbrekkum og Skógarhjalla yfir Seyðisfjörð. í gamalli sóknarlýsingu segir þetta um veginn: “Hann er yfir höfuð allur grýttur, örðugur og blautur og lítt fær með áburð. Mega því fjarðarbúar flytja allar nauðsynjar sínar sjóveg af Seyðisfirði.”

Förum frá sæluhúsinu á Klyppstað austsuðaustur að Sævarenda. Förum suðaustur um Strandarbrekkur undir Gunnhildi og yfir Biskupsgil. Síðan suður og upp í mynni Hjálmárdals austan undir Gunnhildi. Suðvestur í Mjósund og vestur og upp á hjalla og síðan vestur á Hjálmárdalsheiði. Þaðan vestsuðvestur í 640 metra hæð og síðan niður Hall í Kolsstaðadal og yfir Selstaðaá. Í bratta brekku efst á brún Kolstaðadals og förum bratt niður sneiðinga suðaustur um Fossbrekkur. Sveigjum neðan við Grýtubrjóst suðvestur á Skógarhjalla og förum þá bratt niður til suðvesturs á þjóðveg 951 við Dvergastein milli Sunnuholts og Selsstaða.

13,1 km
Austfirðir

Erfitt fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Klyppstaður: N65 21.867 W13 54.051.

Nálægar leiðir: Loðmundarfjörður, Norðdalsskarð, Tó, Vestdalsheiði, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort