Hirðspil hjartadrottningarinnar í Undralandi reyna að telja Lísum landsins trú um, að eðlilega hafi verið staðið að krokketi ríkisráðsfundarins fáheyrða. Fer þar fremst Morgunblaðið, sem að gömlum sið er jafn hlutdrægt í forsíðufréttafyrirsögnum og það er sannfært í leiðurum.
Hjartadrottningin fer að venju á kostum. Hún hefur breytt hirðsiðabókinni á þann hátt, að nú er ekki lengur talað um hæstvirtan forseta Íslands, heldur blessaðan forsetann. Ekki er reynt að leyna fyrirlitningunni á persónunni, sem gegnir æðsta embætti Undralands og skyggir því á drottninguna.
Með krokketinu hefur hjartadrottningin rækilega náð sér niður á forsetanum, sem ekki hafði kært sig um að taka þátt í innansveitarhátíð Sjálfstæðisflokksins til minningar um fyrsta ráðherrann, þann sem drottningin telur endurfæddan í sér. Hirðspilin hrópa í kór: Forsetinn er á skíðum.
Sumir eru á skíðum, kolkrabbinn í golfi og aðrir í krokketi, þar sem leikreglum breytt eftir dyntum drottningarinnar í Undralandi. Ekki virðist sjáanlegur neinn valdamaður, sem geti með virðulegum og óhlutdrægum sóma haldið upp á aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi og fyrsta ráðherrans.
Hirðspilin eru önnum kafin við að mála hvítu rósirnar rauðar eins og hjartadrottningin vill hafa þær. Fjarvera forsetans á skíðum í Bandaríkjunum er móðgun við íslenzku þjóðina, ekki sízt ef hann er í Aspen, segja þau og bugta sig til jarðar, þegar drottningin birtist á krokketvellinum.
Lísur landsins hafa um langt skeið getað kynnzt dyntum drottningarinnar, sem er með fjölda manns á heilanum og getur af þeim völdum ekki á heilli sér tekið. Hún hefur fílsminni á allar mótgerðir og heldur nákvæmar skrár yfir alla þá, sem ekki hafa bugtað sig nógu djúpt fyrir henni.
Nú fer senn að líða að valdalokum hjartadrottningarinnar, en áfram munu starfa flestir þeir, sem hún hefur óbeit á, þar á meðal forsetinn. Þessa dagana fer þeim fjölgandi, sem telja, að Undraland byrji að breytast í eðlilegt þjóðfélag að nýju í haust, þegar vænta má, að reiðiköstunum fari að linna.
Hjartadrottningin hefur verið svo lengi við völd, að sumir voru farnir að gleyma, hvernig er að búa í venjulegu landi, en ekki í hugarfóstri Lewis Carroll. Eigi að síður mun núverandi Undralandi linna, því að ekki er lengi rúm fyrir slíkt ástand í vestrænu landi á tuttugustu og fyrstu öld.
Af með hausinn, hrópaði drottningin í réttarhöldunum yfir Lísu, sem svaraði að bragði: Þú skiptir engu máli, þú ert bara spil.
Jónas Kristjánsson
DV