Hjól lýðræðisins snúast

Greinar

Blöðin eru aftur komin út eftir langt hlé, full af margvíslegum upplýsingum og sjónarmiðum. Margir munu vera fegnir komu þeirra, því að Íslendingar eru þjóða duglegastir blaðalesendur. Sennilega eru dagblöð hvergi í heiminum eins mikilvægur þáttur í lífi fólks og einmitt hér.

Þegar saman fer blaða- og útvarpsleysi, er eins og myrkur færist yfir þjóðfélagið. Menn reyndu að lýsa inn í þetta myrkur með litlum, fjölrituðum fréttablöðum og útvarpsstöðvum, sem spruttu upp víða um landið, en voru síðan stöðvaðar að undirlagi stjórnvalda.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Jón Helgason dómsmálaráðherra settu í gang Þórð Björnsson ríkissaksóknara og Hallvarð Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóra. Þessir fjórir framsóknarmenn létu leggja hald á senditækin “í þágu rannsóknarinnar”.

Í þessu fólst ekki upptaka á tækjunum, enda hefur enginn úrskurður verið kveðinn upp um, hvort stöðvar þessar væru “ólöglegar”. Það er aðeins fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem kveðið hefur upp slíkan úrskurð án dóms og laga, þvert ofan í eðlilegar starfsreglur.

Hinn tímabundni útvarpsrekstur einstaklinga varð strax mjög vinsæll. Skoðanakönnun, sem birt verður hér í blaðinu á morgun, leiddi í ljós, að þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar voru ánægðir með stöðvarnar og að tveir þriðju hlutar hennar töldu, að ekki hefði átt að loka þeim.

Rekstur þessara útvarpsstöðva varð einnig til þess, að opnað var fyrir tvo helztu fréttatíma Ríkisútvarpsins. Þeir fréttatímar hafa komið að töluverðu gagni, þótt fréttamenn hafi greinilega verið mjög vilhallir í fréttaflutningi af málum, sem komu þeim við.

Þetta kom ekki aðeins í ljós í orðavali þeirra í fréttum af málum annarra útvarpsstöðva, sem voru í samkeppni við þeirra útvarp. Þetta kom líka greinilega fram í fréttavali og fréttameðferð í sambandi við vinnudeilurnar, enda eru fréttamenn aðilar að verkfalli BSRB.

Nú hefur þessi einokun blessunarlega verið rofin af dagblöðunum. Lesendur þurfa ekki lengur að gera sér að góðu hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins og hinar mjög svo vanstilltu BSRB-fréttir, sem voru skrifaðar í heiftúðugum stíl Völkischer Beobachter.

Ýmislegt hefur lærzt í löngu dagblaðaleysi. Eitt er, að dagblöðin þurfa betri aðgang að stórvirkari fjölritunartækjum til að verjast tíðum vinnudeilum í pentiðnaðinum. Hinar fjölrituðu DV-fréttir voru merki þess, sem koma skal í slíkum vinnudeilum í framtíðinni.

Annað merkilegt, sem kom í ljós, var, að ýmsir aðilar áttu furðu auðvelt með að koma í skyndingu á fót faglega unninni útvarpsdagskrá og höfðu vald á tækni til að koma henni til eyrna meirihluta þjóðarinnar. Getan er til, ef þingflokkur Framsóknar leyfir.

Ef til væru fleiri útvarpsstöðvar en ríkisins eins, mundi flæði upplýsinga verða mun meira og öruggara en verið hefur, auk þess sem ósennilegt hlyti að teljast, að allar þær mundu stöðvast í vinnudeilum. Í því hlýtur að felast mikið öryggi fyrir fólkið í landinu.

En nú eru dagblöðin alténd aftur komin í hendur fólks. Aftur er völ á fleiri og fjölbreyttari fréttum en hægt er að koma við í útvarpi. Aftur er kostur á margvíslegum skoðanaskiptum í kjallaragreinum og í öðru formi blaðanna. Hjól lýðræðisins eru aftur farin að snúast á eðlilegan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV