Hjörðin og hirðirinn

Greinar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skelfdust, þegar þeir voru spurðir, hvort þeir vildu, að formaður flokksins byði sig fram til forseta Íslands. “Ekki spyrja mig” báðu þeir. Aðeins einn þingmaður flokksins treysti sér til að hafa skoðun á einu helzta umræðuefni þjóðarinnar.

Eins og þingflokkurinn er skipaður, telja þingmenn ekki hlutverk sitt að hafa skoðun á máli, fyrr en formaðurinn hefur sagt þeim, hvaða skoðun þeir eigi að hafa. Og hann hefur ekki sagt þeim, hvaða skoðun þeir eigi að hafa á þessu máli. Því eru þeir bjargarlausir.

Örfáar undantekningar eru á þessu, en þær snerta jafnan afmörkuð mál. Einar Oddur Kristjánsson treystir sér til að hafa sérstaka skoðun á framboði formannsins til forseta. Og Egill Jónsson á Seljavöllum treystir sér til að hafa sérstaka skoðun á landbúnaðarmálum.

Flestir þingmenn flokksins tengjast ákveðnum hagsmunum, til dæmis byggða eða atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja, en eru ekki fulltrúar neinnar sérstakrar línu í stjórnmálum. Þeir eru aðilar að kosningavél, sem hefur engan sérstakan tilgang annan en völdin.

Þetta er raunar nákvæmlega það sama og einkennir þingflokk Framsóknarflokksins í jafn ríkum mæli og að meira eða minna leyti flesta aðra þingflokka. Þeir eru sagnfræðileg og tæknileg fyrirbæri, en ekki pólitísk. Enda tala verk allra ríkisstjórna sama rómi.

Þegar Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, skammaði sína menn fyrir skoðanaleysi í framboðsmáli formannsins, benti hann á, að enginn munur væri lengur á einstökum deildum fjórflokksins gamla á Alþingi. Þeir gætu þess vegna boðið framan sameiginlega.

Engin flokkur hefur þróað þetta skipulag betur en Sjálfstæðisflokkurinn. Þar snýst veröldin umhverfis formanninn. Einstakir flokksmenn og verkstjórar telja ekki hlutverk sitt að reyna að hafa áhrif á stefnuna, enda skiptir alls engu máli, hver hún er á pappírnum.

Þetta gekk mjög vel, þegar Bjarni Benediktsson var formaður og gengur aftur vel núna, þegar Davíð Oddsson er formaður. Á milli var óróatímabil ósamkomulags um formenn. Sá ágreiningur hentaði flokknum illa og menn voru fegnir að fá Davíð til að hugsa fyrir sig.

Nú eru menn svo eðlilega og notalega skoðanalausir, að þeir hafa enga skoðun á því, hvort landsþing flokksins skuli vera að vori eða hausti, þetta árið eða hitt. Þeir bíða bara eftir ákvörðun formanns. Þeir mundu sætta sig við, að landsþingi yrði frestað til aldamóta.

Skoðanalaus og foringjahollur flokkur er kjörinn valdaflokkur. Hann nær léttu samkomulagi við aðra flokka um myndun ríkisstjórnar, af því að menn eru innilega sammála um að láta ekki málefnaágreining standa í vegi. Hrein og tær völd eru eina stórmálið.

Það hentar slíkum flokki að vera í samstarfi um skiptingu valdsins við Framsóknarflokksins, sem tímabundið hefur komið upp svipuðu formannsveldi og Sjálfstæðisflokkurinn. Ekkert mælir á móti því, að samstarfið haldist fram eftir næstu öld, ef kjósendur bara leyfa.

Þannig er ekki hægt að merkja, að ríkisstjórnir, sem Sjálfstæðisflokkurinn skipar, séu hægri sinnaðri en aðrar. Allar ríkisstjórnir vernda miðstýringuna, af því að hún hentar sterku hagsmunaaðilunum, sem hafa aðgang að valdinu og hafa þingmenn á sínum snærum.

Einn góðan veðurdag segir formaðurinn flokki sínum, hvort hann ætlar að verða forseti landsins. Allir verða áfram afar hamingjusamir og una glaðir við sitt.

Jónas Kristjánsson

DV