Hlaðborð

Veitingar

Útlendingar fá misjafnan viðurgerning við hlaðborð stóru hótelanna í Reykjavík. Gott er hlaðborðið á Hótel Esju, en einnig fremur gott á Hótel Loftleiðum. Lakara er það á Hótel Holiday Inn og lakast á Hótel Sögu.
Holiday Inn og Esja hafa til skamms tíma verið með sjávarréttahlaðborð, bæði í hádegi og að kvöldi. Saga og Loftleiðir hafa verið með hefðbundið hlaðborð og Loftleiðir aðeins með það í hádeginu.

Öfug hlutföll
verðs og gæða
Aðgangur að hlaðborði var ódýrastur, þar sem maturinn var beztur, á Hótel Esju. Þar kostaði hann 980 krónur í hádegi og 1380 krónur að kvöldi. Næst kom borðið á Sögu, 1290 krónur í hádegi og 1970 krónur að kvöldi. Síðan komu Loftleiðir með 1395 krónur í hádegi. Dýrast var loks Holiday Inn, þar sem hlaðborðið kostaði 1450 krónur í hádegi og 1950 krónur að kvöldi.
Í flestum tilvikum er heldur minna úrval í hádeginu en kemur fram í lýsingum hér að neðan.
Hlaðborðið í Esju er í veitingasalnum Laugaási, sem rekinn er af sömu mönnum og reka samnefnt veitingahús við Laugarásveg. Hlaðborðið á Loftleiðum er í veitingasalnum Lóni, á Sögu er það í veitingasalnum Skrúði og á Holiday Inn er það ýmist inni á Setri eða frammi í Lundi.
Í öllum þessum veitingasölum var þjónusta góð, enda veitt af lærðu fagfólki. Hvarvetna var tekið á móti gestum við innganginn og þeim leiðbeint eftir þörfum. Alls staðar var starfsfólk á sveimi við að hirða notaða diska, svo að gestir gætu fengið sér nýja diska, er þeir legðu til atlögu við nýja þætti hlaðborðsins.
Tæpast stóð þetta á Esju, enda var langsamlega mest að gera þar, mun meira en á hinum stöðum til samans.

Stæling á
smörgåsbord
Íslenzk hlaðborð eru angi af hinu sænska smörgåsbord, sem Norðurlönd virðast óvart hafa komið sér saman um, að væri gott samnorrænnt einkenni til að bjóða erlendum ferðamönnum.
Stundum er byrjað á súpu, en hefðbundið er að byrja á síldarréttum. Síðan er skipt um diska og farið í kalda rétti. Þá er skipt um diska fyrir heita rétti, fyrst sjávarrétti og síðan kjötrétti. Síðast eru ostar og eftirréttir.
Fólk verður að fara varlega í hina löngu röð rétta, sem tíðkast á hlaðborðum. Ekkert vit er í að bragða á öðru en því, sem því lízt bezt á, því að hitaeiningar rjúka annars upp úr öllu valdi. Það eru bara atvinnusmakkarar, sem neyðast til að sæta öllu gumsinu.
Vafasamt er, að síld eigi heima í þessari röð, þótt hún tilheyri smörgåsbord. Síld er svo bragðsterk, að hún yfirgnæfir þá rétti, sem koma á eftir, þannig að þeir virðast meira eða minna bragðlausir. Síld á heima í sérstakri síldarmáltíð út af fyrir sig, en ekki á hlaðborði.
Það má hafa til marks um lítinn skilning hugmyndafræðinga hlaðborðsins á matargerðarlist, að þeir skuli hafa gert síld að þætti hlaðborðs og meira að segja að upphafsþætti þess.

Sítrónusilungur
í Laugaási
Helzti galli sjávarréttahlaðborðsins í Laugaási Hótels Esju er, að þar er ekki boðið upp á neinn einasta eftirrétt, hvorki ost né sæturétt. Menn verða að kaupa hann sérstaklega, ef þeir vilja standa upp með sætt bragð eða ostabragð í munninum. Þar á ofan er framboð eftirrétta lítið á staðnum.
Sveppasúpan var nokkuð góð á Esju, með tvenns konar brauði. Síldarréttirnir voru góðir og fjölbreyttir, fimm talsins. Fiskikæfan var mjög bragðgóð, þótt hún fengi engin fegurðarverðlaun fyrir útlit. Steikt ýsa legin og borin fram köld var ekki góð. Graflax var góður og sítrónuleginn silungur mjög góður. Túnfiskpasta var næstum frambærileg.
Í heita borðinu voru margar fisktegundir, hver með sinni matreiðslu, steinbítur, ýsa, smálúða, silungur og fleira. Þetta var meiri fjölbreytni en boðin var á öðrum stöðum.
Sætsúr steinbítur var góður og smálúðan sæmileg. Blanda af hörpufiski og rækju var ekkert sérstök. Léttsteiktur silungur var nokkuð góður og saltfiskur ágætur. Þetta var eina hlaðborðið, sem bauð hinn þjóðlega saltfisk.
Í heild má segja, að þetta hlaðborð hafi ekki verið neitt afreksverk matargerðarlistar, en það hafði að geyma nóg af frambærilegum eða beinlínis góðum réttum.
Laugaás í Esju er notalegur staður, fremur þétt skipaður borðum. Mikið speglaverk gefur staðnum stækkaða ímynd. Gestir sitja í þægilegum armstólum við einföld, en snyrtileg borð með leðurmottum. Á kvöldin um helgar er góður og hófsamur hljómlistarmaður við vandað hljómborð.

Reyksvín
í Lóni

Á Loftleiðum var boðið upp á fjórar fiskikæfur og voru þrjár þeirra mjög góðar. Hreindýrakæfan var hins vegar bragðlaus. Síldarréttirnir tveir voru of þurrir. Reyktur lax, reyktur silungur og graflax voru allt vel heppnaðir réttir. Gellur voru hins vegar misheppnaðar, í súrum legi, sem hæfir gellum engan veginn. Blaðlaukssúpa var ómerkileg.

Hrásalat var ferskt og gott og sömuleiðis pastaréttur hlaðborðsins. Skinkutartalettur voru sæmilegar og sama má segja um kjöthakk. Heitt lambalæri var frambærilegt, en langbezt var reykt svínakjöt, mjög meyrt og gott.

Eftirréttir Lóns báru af öðrum réttum þess. Þar voru hæfilega þroskaðir ostar, svo sem camembert, en sjaldgæft er, að ostar séu rétt fram bornir í veitingahúsum landsins. Ennfremur voru þar fjölmargir ferskir ávextir, auk krækiberja, legin jarðarber og perur, svo og royal-búðingur í súkkulaðibolla.

Þótt Lón sé opinn staður, er hann ekki óþægilega ónæðissamur, enda er vítt milli borða. Stólar eru góðir og húsbúnaður allur hinn vandaðasti.

Athugið, að þetta hlaðborð er aðeins í hádeginu.

Graflax
á Setri

Mestur glæsibragur og mest handavinna lá að baki sjávarréttahlaðborðsins í Holiday Inn. Árangurinn var hins vegar ekki í samræmi við fyrirhöfnina, enda mest áherzla á útliti og minni á innihaldi.

Fiskurinn var þurr af langvinnri suðu, þar á meðal laxinn. Hið sama var að segja um rækjurnar, sem sízt mega við slíkri meðferð. Steiktur fiskur var þurr og skorpinn. Fiskikæfur af ýmsu tagi voru undantekningarlaust hvimleiðar, þar á meðal laxakúlubjakk. Innbakaður lax var sæmilegur. Beztur var graflax.

Setrið er að útliti fremur hugmyndasnauður hótelsalur. Frískara umhverfi er í Lundi, sem er alveg opinn inn í anddyri, eftir formúlu, er um nokkurt skeið hefur verið í tízku, svo sem einnig má sjá í Lóni og Skrúði.

Rækjur
í Skrúði

Kæfur Skrúðs voru bragðlausar með öllu, en fínt upp færðar. Rækjur og hörpufiskur í hlaupi voru aðallega gamaldags hlaup, sem er orðið sjaldséð nú til dags. Reyktur og grafinn lax var góður. Köld skinka og kalt lamb voru ekki í frásögur færandi.

Rækjur og síld voru góðir réttir úr kalda borðinu. Heita borðið var mun lakara. Þar var skraufaþurrt og grátt lambakjöt og enn lakara grísakjöt. Hvoru tveggja hafði verið misþyrmt með langri upphitun.

Eftirréttir voru ómerkilegir, einkum kryddblönduostar af ýmsu tagi. Þar voru þó melónur og tvenns konar vínber, svo og skyr. Búðingur var frambærilegur.

Þurrkur voru lélegar í Skrúði, en umbúnaður að öðru leyti góður. Nokkuð ónæði er af umgangi milli hótelanddyra. Staðurinn er hannaður í vetrargarðsstíl, en skortir plöntur til að vera notalegur sem slíkur. Stólar eru góðir eins og á öðrum stöðum, sem fjallað hefur verið fjallað um í þessari grein.

Bolli af espresso-kaffi kostar 170 krónur í Skrúði. Hann kostar 190 krónur í Lóni, 185 krónur í Setri og 150 krónur í Laugaási. Sem fyrr er hið bezta ódýrast.

Jónas Kristjánsson

DV