Hlaðin hugtök

Punktar

EF ÉG BÝ til lúxusmat heima hjá mér, hefur það engin áhrif á landsframleiðslu eða svokallaða verga landsframleiðslu á enn fínna máli. Ef ég borða hins vegar vondan mat á dýru veitingahúsi, hækkar landsframleiðsla þjóðarinnar.

LANDSFRAMLEIÐSLA er hugtak, sem stendur ekki undir mikilli notkun. Hún er eins og reiknivél, sem kann bara að leggja saman, en ekki að draga frá. Samt er hún notuð til að meta stöðu þjóðarinnar og heimsins og til að draga ályktanir.

EF TÓLF PRÓSENT bandarískra negra á bezta aldri eru teknir af atvinnuleysisskrá og settir í fangelsi, eykst landsframleiðslan þar vestra um alla fyrirhöfnina við að reisa og reka fangelsi. Þetta er þar á ofan raunveruleiki.

EF LANDI á stóru svæði er fórnað fyrir Kárahnjúkavirkjun, hækkar landsframleiðsla vegna tilkostnaðarins, þótt útkoman sé bara niðurgreiðsla á rafmagni til stóriðju. Ef ekki hefði verið virkjað, hefði landsframleiðslan bara staðið í stað.

EF SKÓGUM Amazon er eytt, hækkar landsframleiðslan í Brazilíu, en hún stendur í stað, ef þeir eru látnir í friði og ekki fórnað ómælanlegum verðmætum regnskógarins. Þannig er landsframleiðslan hugtak, sem felur í sér margar hættur.

HAGFRÆÐIN byggist á lélegum hugtökum á þessu tagi, sem eru notuð til samanburðar út og suður, samanburðar milli ára, milli landa og milli hagkerfa. Þannig segja menn til dæmis, að vestan og austan hafs sé landsframleiðslan hin sama.

RAUNAR ERU hagkerfi, þjóðskipulag og umhverfisvernd misjöfn vestan og austan hafs. Margt er gagnlegt í Evrópu, sem mælist ekki í landsframleiðslu og annað er mótdrægt í Bandaríkjunum, sem telst þó þar vera landsframleiðsla.

DV