Menntaskólarnir og aðrir hliðstæðir skólar virðast veita nemendum sínum ótrúlega jafnt veganesti til háskólanáms eftir tölum að dæma, er Halldór Guðjónsson, kennslustjóri Háskóla Íslands, hefur tekið saman um árangur fyrsta árs nemenda.
Stúdentar úr níu af fimmtán skólum hafa að meðaltali 6,27 – 6,74 í svokallaða lagfærða meðaleinkunn úr fyrsta árs prófum háskólans. Munur þessara skóla er ekki marktækur, enda mundu þeir allir fá 6,5 eftir einkunnareglum háskólans.
Stúdentar úr fjórum skólum til viðbótar ná að meðaltali 6 eða betur í lagfærða meðaleinkunn. Aðeins Fjölbrautaskóli Suðurnesja með 5,44 og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti með 5,09 sitja eftir á botninum með heldur lakara veganesti.
Tölurnar gætu bent til, að tveir grónir heimavistarskólar, Samvinnuskólinn á Bifröst og Menntaskólinn á Akureyri, hefðu nauman vinning fram yfir hina menntaskólana, sem koma flestir rétt á eftir í þéttum hnapp.
Á þessari túlkun er sá hængur, að því er varðar Samvinnuskólann, að hann hefur betri aðstöðu en flestir aðrir skólar til að velja sér nemendur, því að hann er ekki skuldbundinn neinu sérstöku landsvæði og býr við góða aðsókn.
Athugun þessi er fleiri annmörkum háð. Hún mælir aðeins einn árgang stúdenta. Í einum og sama skóla geta árgangar verið misjafnir, til dæmis eftir því, hverjir veljast sem forustusauðir, námsmenn eða kæruleysingjar.
Ennfremur er ekki öruggt, að árangur í fyrsta árs prófum háskólans sé traustur mælikvarði á árangur sömu nemenda í lokaprófum. Veganestið úr stúdentsprófaskólunum getur verið misjafnlega hraðvirkt og misjafnlega haldgott.
Eigi að síður er athugunin merkileg vísbending, sem fylgja þarf eftir. Safna þarf upplýsingum um nýja árganga og bera þá ekki aðeins saman skóla, heldur einnig námsbrautir, því að þær geta verið ekki síður misgóðar en skólarnir.
Þá væri og æskilegt að líta aftur í tímann og kanna árangur fyrri árganga til að þurfa ekki að bíða í nokkur ár eftir heillegri mynd. Loks kæmi vel til greina að bera skólauppruna manna saman við lokapróf þeirra frá háskólanum.
Að búa fólk undir háskólanám hlýtur að vera verulegur þáttur í markmiðum menntaskóla og hliðstæðra skóla, sem veita stúdentspróf. Því er nauðsynlegt að móta mælikvarða á árangur þessa undirbúnings, svo sem nú hefur verið reynt.
Fyrstu tölur hljóta að valda vonbrigðum hinna breytingasinnuðu. Íhaldssamir og nýstárlegir menntaskólar standa hlið við hlið í einkunnagjöf Halldórs Guðjónssonar. Það er eins og menn hafi hlaupið hratt til að standa í stað.
Að sumu leyti er jákvætt, að tölurnar skuli sýna jafnan árangur skóla með mismunandi aðferðir. Það bendir til, að æskilegt sé að halda fjölbreytni, hafa róttæka og hefðbundna skóla í ýmsum myndum og forðast hvers konar öngstræti.
Ennfremur sýna tölurnar, að hinir nýju fjölbrautaskólar þurfa að gæta sín. Þeir verða að auka kröfur til nemenda sinna, svo að ekki grunnmúrist stéttskipt kerfi fínna menntaskóla annars vegar og ófínna fjölbrautaskóla hins vegar.
Skólamenn hljóta að taka hinum nýju tölum af áhuga, ræða þær af kappi, reyna að túlka þær og þó fyrst og fremst hvetja til, að víðar og dýpra verði leitað fanga til að kanna, hvað þjóðin gerir í raun við árlegar 600 milljónir nýkróna skólakerfisins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið