Stuðningsmenn hinnar miklu hækkunar, sem varð á eignaskatti um áramótin, segja, að sanngjarnt sé, að breiðu bökin í þjóðfélaginu borgi hlutfallslega meira en áður í sameiginlegan sjóð landsmanna, enda hafi bilið milli auðfólks og almennings aukizt á síðustu árum.
Andstæðingar hækkunarinnar segja hins vegar, að ósanngjarnt sé, að kerfið taki upp eignir fólks með þessum hætti. Fyrst hafi fólk greitt háa skatta af tekjum sínum. Ef það síðan spari af hinum skattlögðu tekjum í stað þess að sóa þeim, sé því refsað með eignaskatti.
Eignaskattsdeilan er dæmi um, að almennt er auðveldast fyrir þjóðina að ræða um hagmál á grundvelli tilfinninga á borð við, hvað sé sanngjarnt og hvað sé ósanngjarnt. Annað dæmi er umræðan um raunvexti, sem snýst að miklu leyti um sanngirni og ósanngirni.
Minna fer fyrir skoðunum, sem byggjast á því, hvað sé hagkvæmt og hvað sé óhagkvæmt. Að svo miklu leyti sem umræðan víkur frá hugtökum sanngirninnar, fjallar hún um hagsmuni á borð við þá, sem nú stjórna tilraunum ráðamanna til að draga úr vaxtabyrði fyrir tækja.
Eignaskattur var um áramótin hækkaður úr 1,2% í 2,7% á eignir umfram sjö milljónir hjá einstaklingi og fjórtán hjá hjónum. Ef dreginn er frá meðalbíll og aðrar smáeignir, má segja, að skattþrepið sé ofan við myndarlega íbúð einstaklings og myndarlegt einbýlishús hjóna.
Af hálfu fjármálaráðuneytisins var með vafasömu orðalagi reynt að láta líta svo út sem hækkunin væri úr 1,2% í 1,5%. Sú tilraun til blekkingar tókst auðvitað ekki, en sýnir, hvað menn láta sér detta í hug á þeim bæ, þegar nógu ósvífnir pólitíkusar eru við völd.
Í umræðunni hefur ekki verið fjallað að neinu ráði um hliðarverkanir þessarar lyfjagjafar handa fársjúkum ríkissjóði, enda er sjaldgæft, að stjórnmálamenn og möppudýrin í kringum þá geri sér grein fyrir afleiðingum umfangsmikilla ákvarðana landsstjórnarinnar.
Þeir, sem þurfa að borga rúmlega tvöfaldaðan eignaskatt, reyna sumir hverjir að finna ráð til að losna við hann. Einfaldasta leiðin er að færa fjárfestingu sína úr skatttækri mynd yfir í skattfrjálsa, til dæmis með því að selja fasteignir og kaupa ríkisskuldabréf.
Meðan slíkar undankomuleiðir eru til, má búast við, að heildarskatttekjur ríkisins af hækkuninni verði mun minni en ráð er fyrir gert. Þetta er samt hagkvæmasta undankomuleiðin fyrir þjóðfélagið, því að sparnaðurinn er áfram til, þótt margir hafi skipt um tegund hans.
Verra er, ef margir greiðendur eignaskatts telja skynsamlegra eða þægilegra að fara að eyða í stað þess að spara. Sum eyðsla er meira eða minna skattfrjáls, til dæmis ferðalög í útlöndum. Líklegt er, að einhverjir velji slíka leið til að komast hjá ránshendi ríkisins.
Sú hliðarverkun gerir heildarsparnaðinn í þjóðfélaginu minni en ella og er þannig hin sama og hliðarverkunin af lækkun raunvaxta. Þjóðfélagið hefur minna en ella aflögu til að efla landshagi og meira þarf af erlend um lánum, sem þyngja skuldabyrði þjóðarinnar.
Íslendingar hafa oft rekið sig á þennan vanda. Aukin skattheimta hefur tilhneigingu til að minnka stofninn, sem skatturinn er sóttur í. Skattahækkunin nær því tilgangi sínum aðeins að hluta og hefur ýmsar hliðarverkanir, sem eru utan sjóndeildarhrings ráðamanna.
Lukkuriddararnir, sem fara með völd í landinu um þessar mundir, hneigjast til umfangsmikilla og afdrifaríkra aðgerða, sem þeir hafa ekki hina minnstu sýn yfir.
Jónas Kristjánsson
DV