Hliðvarzlan er úrelt

Greinar

Flestir fjölmiðlar landsins höfðu um miðjan vetur nasasjón af þeim fjármálum borgarstjórnarframbjóðanda, sem hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni síðustu tvær vikur. Á öllum fréttastofunum var ákveðið að láta kyrrt liggja, þar sem pólitík gat verið í spilinu.

Þetta er hefðbundin hliðvarzla fjölmiðla, eins konar skömmtun á upplýsingum. Afar sjaldan er samkomulag milli fjölmiðla um slíka hliðvörzlu og svo var ekki heldur að þessu sinni. Á hverjum fjölmiðli fyrir sig var sama ákvörðun tekin án samráðs við hina fjölmiðlana.

Ástæður hliðvörzlunnar eru oftast þær, að fjölmiðillinn þarf að varðveita traust lesenda og telur hlaup á eftir viðkvæmum rokufréttum geta skaðað þetta traust, einkum ef síðar kemur í ljós, að hagsmunaaðilar úti í bæ hafi komið rokufréttinni á flot í eigin þágu.

Skylt þessari hliðvörzlu er samkomulag fjölmiðla og annarra aðila um að fresta birtingu upplýsinga fram til ákveðinna tímamarka. Þannig hefur fjármálaráðuneytið til dæmis kynnt fjölmiðlum efni fjárlagafrumvarps fyrirfram, svo að þeir fái góðan tíma til að skoða það.

Þetta hefur sett fjölmiðla í vanda, ef þeir hafa verið að afla sömu upplýsinga eftir öðrum leiðum. Með samkomulagi við ráðuneytið er fjölmiðillinn að binda hendur sínar, því að engin leið er að greina á milli þess, sem lekið er í fjölmiðla og hins, sem liggur á lausu.

Þannig hefur DV undanfarin ár hafnað að taka þátt í fundum ráðuneytisins um fjárlagafrumvarpið. Með þeim hætti einum telur blaðið sér unnt að birta fyrirfram fréttir af innihaldi fjárlagafrumvarps. Þannig hætti samkomulag um hliðvörzlu að virka á því sviði.

Hliðvarzla fjölmiðla hefur byggzt á fákeppni. Fullburða fréttastofur eru aðeins fimm á landinu. Fimm fréttastofur geta þagað yfir rokufréttum, annað hvort með samráði eða án samráðs. Þegar fréttastofurnar eru orðnar hundrað eða þúsund, hrynur hliðvarzlan.

Netið gerir hliðvörzluna úrelta. Hver einasti borgari getur sett upp eigin fréttastofu á sinni heimasíðu. Hann þarf ekki að kaupa dýr tæki, prentvél upp á hálfan milljarð eða ljósvakakerfi upp á annað eins. Hann kaupir bara forrit fyrir nokkur þúsund krónur.

Fyrstir á vettvang eru hagsmunaaðilar, sem telja sig þurfa að koma sjónarmiðum eða upplýsingum ómenguðum á framfæri. Þannig hefur menntaráðherra um nokkurt skeið rekið eigin heimasíðu, þar sem hann gefur til dæmis fjölmiðlum einkunn fyrir frammistöðu.

Þannig var hliðvarzla fjölmiðla í fjármálum borgarfulltrúans sprengd í loft upp af heimasíðu tveggja manna, sem töldu sig hafa harma að hefna. Nánast samtímis og án samráðs ákváðu þá hefðbundnu fjölmiðlarnir, að málið hefði verið opnað og væri orðið húsum hæft.

Með þessum atburði lýkur formlegri hliðvörzlu af hálfu hinna hefðbundnu fjölmiðla. Þróunin hefur gert hana úrelta. Sú breyting er í sjálfu sér hvorki góð né vond. Hún felur bara í sér nýjan tíma með nýjum leikreglum, sem starfsmenn fjölmiðla þurfa að venjast.

Áfram munu hefðbundnir fjölmiðlar telja sig þurfa að varðveita og efla traust notenda sinna. Þeir geta hins vegar ekki lengur gert það með því að þegja þunnu hljóði, meðan rokufréttir leika lausum hala á Netinu. Þeir verða að taka á málum og gera það hratt.

Vandi fólksins er þó meiri en fjölmiðlanna. Þegar hliðvarzlan hverfur, þarf fólk að leggja harðar að sér við að meta fréttir, sem steðja að úr þúsund áttum.

Jónas Kristjánsson

DV