Við berum ábyrgð á heilsu jarðarinnar. Við höfum sett í gang ferli, sem eru að breytast í vítahringi. Regnskógarnir eru að byrja að breytast í eyðimerkur af því að hitinn mun aukast þar um fimm gráður. Á tempruðum landbúnaðarsvæðum mun hann aukast um átta gráður. Jörðin er lifandi fyrirbæri, sem hefur þolað ísaldir og eldgos, en hún þolir ekki áhlaup mannkyns á vistkerfi hennar. Við megum ekki líta á skóga og höf sem forðabúr. Við þurfum að líta á þessar auðlindir sem húðina á sjúkri jörð. Við erum hluti af lífríki jarðarinnar og getum ekki lengi haldið lífi með óbreyttri umgengni.