Hnífinn í bakið

Greinar

Efnislega hafði Þorsteinn Pálsson rétt fyrir sér, þegar hann hindraði áform allra hinna ráðherranna í ríkisstjórninni um að banna sjómannaverkfallið með lögum. Þeir höfðu verið óþarflega taugaveiklaðir út af deilu, sem síðan var leyst á einfaldari hátt.

Í heiðarlegu samstarfi hefði formaður Sjálfstæðisflokksins farið að með öðrum hætti. Þá hefði hann byrjað á að setjast að Steingrími Hermannssyni, sagt honum skoðun sína og án upphlaups gefið forsætisráðherra tækifæri til að leggja til að málinu yrði frestað.

Í þess stað fór Þorsteinn fjármálaráðherra beint í stólinn. Málflutningur hans kom öllum viðstöddum greinilega á óvart, ekki sízt hinum ráðherrunum. Á þennan hátt kom hann ekki framan að þeim, heldur aftan að þeim og stakk hnífnum í bak þeirra.

Þorsteinn valdi sjálfur þessa grófu málsmeðferð í stað hinnar kurteislegri, sem venjulegri er í samskiptum samstarfsmanna. Með því vakti hann meiri skammtímaathygli á réttmætum málstað sínum, en bjó sér og flokki sínum jafnframt til hættulegan langtímavanda.

Hnífstunga ráðherrans er önnur og alvarlegri en laus skot af ýmsu tagi, sem þotið hafa milli manna á þessum kosningavetri. Hún ristir dýpra en ummæli hans um, að ekki sé ástæða til að taka forsætisráðherra of alvarlega, þegar hann fjalli um Seðlabankann.

Síðarnefnda skítkastið er svipað öðru slíku, sem tíðkast hefur og tíðkast enn í samskiptum stjórnmálamanna hér á landi. Það felst bara í orðum, marklitlum orðum, sem stjórnmálamenn hafa illu heilli tamið sér og taka ekki mark á frekar en áhorfendur að stjórnmálunum.

Að vísu eru gífuryrðin vandamál, sem stjórnmálaleiðtogum ber að hemja hjá liðsforingjum sínum. Við sjáum til dæmis, að einn ráðherrann, Sverrir Hermannsson, opnar tæpast svo munninn, að hann flytji ekki skæting, níð og hótanir, alveg eins og honum sé ekki sjálfrátt.

En það er allt annað og ómerkara að kasta dónalegu orðbragði hver í andlit annars en að stinga hnífnum í bakið. Steingrímur Hermannsson reyndi að bera sig vel eftir sárið, en enginn vafi er á, að hann gleymir því seint. Hið sama má segja um aðra ráðherra.

Vel getur verið, að Þorsteinn hafi efni á að gera sjálfstæðisráðherrana að fíflum, fyrst og fremst Matthíasana Bjarnason og Mathiesen, sem gegndu starfi fjármálaráðherra í fjarveru hans, svo og Sverris, sem hafði heimtað bráðabirgðalög á sjómenn.

Hugsanlega undirstrikar þetta svo rækilega, að Þorsteinn ætli að skipta um ráðherragengi flokksins eftir kosningar, að gamla gengið muni nú lyppast niður eins og barðir rakkar. En jafnlíklegt er, að einhvern tíma telji einhver þeirra gott að hefna sín lítillega.

Hitt er alvarlegra, að eftir næstu, þarnæstu og aðrar kosningar þarf formaður Sjálfstæðisflokksins að hyggja að stjórnarsamstarfi við aðra flokka. Eftir hnífstungu síðustu viku munu formenn annarra flokka umgangast stungumanninn með varúð og engu trúnaðartrausti.

Það er ekki aðeins Steingrímur, sem Þorsteinn þarf þá að tala við. Formenn annarra flokka hafa einnig tekið greinilega eftir vinnubrögðum formanns Sjálf stæðisflokksins og munu reyna að forðast að verða fórnardýr sömu eða hliðstæðra vinnubragða.

Góð ríkisstjórn eins og Viðreisnin krefst gagnkvæms trausts, einnig í kosningabaráttu. Þorsteinn hefur spillt væntanlegum tilraunum sínum til stjórnarmyndunar.

Jónas Kristjánsson

DV