Hnjótsheiði

Frá Naustabrekku á Rauðasandi um Hnjótsheiði til Örlygshafnar í Patreksfirði.

Sneiðingarnir ofan Naustabrekku eru vel lagðir og sumstaðar er hlaðið í þá, þar sem þeir fara yfir skorninga. Lítill bratti er í sneiðingunum og þeir léttir göngu. Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Byrjum hjá Naustabrekku vestast á Rauðasandi. Við förum norður og upp sneiðinga í Brekkudali og þar kvíslast reiðvegurinn, í vestur að Keflavík og beint í norður á Hnjótsheiði í 280 metra hæð. Næst með háspennulínu austan við Stákanúpshæð og vestan við Núp og norður Heiðardal að Hnjóti í Örlygshöfn í Patreksfirði.

7,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hyrnur, Dalverpisvegur, Mosdalur, Tunguheiði, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort