Höfðingjasiðfræði

Greinar

Fjármálaráðherra segist ekki vera sáttur við, að opinberir starfsmenn misnoti opinber faxtæki til að koma mótmælum sínum á framfæri við fjármálaráðuneytið. Hann er hins vegar fyllilega sáttur við að misnota sjálfur aðstöðu sína á hundraðfalt grófari hátt.

Fjármálaráðherra mælti á sínum tíma hin fleygu orð, sem hafa orðið einkennisorð íslenzkrar spillingar: “Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir”. Það fer honum því ekki vel að reyna að siða opinbera starfsmenn.

Eins og svo margir þeirra, sem hafa verið ráðherrar á síðustu árum, lifir fjármálaráðherra í tvískinnungsheimi, þar sem þjóðinni er skipt í tvennt. Annars vegar er sauðsvartur almúginn og hins vegar nokkrir stjórnmálamenn, sem ekki þurfa að lúta siðalögmálum.

Í þessum einkennilega hugarheimi ráðherrans er í lagi, að hann dveljist í margra daga sumarleyfi í Thailandi á ríkiskostnað. Þar á ofan er að hans mati í lagi, að hann fái á meðan kaupauka, sem hann fær ekki, þegar hann er að vinna á skrifstofunni í Arnarhvoli.

Athyglisvert er, að ráðherrar skuli skerða ferðahlunnindi sín minna en annarra ferðagarpa hins opinbera, þegar harðnar á dalnum. Samt eru hlunnindi ráðherranna beinlínis ferðahvetjandi, því að þau aukast í réttu hlutfalli við aukið flandur þeirra í útlöndum.

Lengi og oft hefur verið bent á, að ráðherrar ættu ekki að fá í senn allan ferðakostnað borgaðan og sérstakan launaauka þar á ofan á ferðatímanum. Fjármálaráðherra hefur ekki gert neina tilraun til að breyta þessu, enda er hann hinn ánægðasti með aðstöðu sína.

Ráðherrar eru nú farnir að jafna sig eftir áfallið í brennivínsmáli forseta Hæstaréttar. Misnotkun þeirra á veizluaðstöðu og veizluföngum ríkisins er að aukast á nýjan leik. Þetta sést af tölum um vaxandi viðskipti ríkisins við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins.

Fjármálaráðherra segir, að “afspyrnuerfitt” sé að fara hér á landi eftir sömu reglum og gilda í Bandaríkjunum, þar sem ríkið sendir stjórnmálaflokkum reikninga fyrir veizlu- og ferðakostnaði á vegum flokka; og ráðherrum reikninga fyrir einkakostnaði af því tagi.

Ofan á persónulega spillingu ráðherra verður sífellt fyrirferðarmeiri hin flokkslega spilling þeirra. Í síðustu ríkisstjórn höfðu ráðherrar Alþýðubandalagsins forustu um að koma kostnaði við áróðursherferðir, kosningabæklinga og kosningafundi yfir á herðar ríkisins.

Þessi tegund siðleysis hefur haldizt í tíð núverandi ríkisstjórnar. Einkum hefur heilbrigðisráðherra verið iðinn við að sóa ríkisfjármunum í slíka spillingu. Kvartanir utan úr bæ hafa ekki hin minnstu áhrif. Að ræða spillingu við ráðherra er eins og að stökkva vatni á gæs.

Í hugarheimi slíkra ráðherra eru þeir æðri lögum og reglum, sem gilda um þjóðina. Þeir hafa sérreglur um sín eigin hlunnindi í ferðalögum, bifreiðum og veizluhöldum. Þeir telja sig arftaka aðalsins og líta á þjóðfélagið sem herfang, er hafi fallið þeim í skaut.

Þetta hugarfar tengist náið þeirri ofbeldishneigðu skoðun, sem nýtur vaxandi útbreiðslu hjá ráðherrum, að þeim eigi að leyfast að nota aðstöðu sína til að “valta yfir” þá, sem standa í vegi þeirra, svo sem heilbrigðisráðherra hefur gert í málefnum Landakotsspítala.

Þegar ráðherra, sem sér ekkert athugavert við eigin spillingu, kvartar opinberlega um óeðlilega faxnotkun opinberra starfsmanna, er hræsnin komin á hátt stig.

Jónas Kristjánsson

DV