Hóflegt tjón

Greinar

Við eigum sterkan Viðlagasjóð og getum því staðið undir skaðanum af völdum jökulhlaupsins á Skeiðarársandi. Kostnaðurinn nemur að þessu sinni tveim milljörðum króna samkvæmt fyrstu ágizkunum, aðallega í brúm, en einnig í vegi, ljósleiðara og raflínu.

Brýrnar á sandinum hafa staðið í rúmlega tvo áratugi og náð að safna töluverðum afskriftatíma. Þótt við verðum fyrir svona miklu tjóni á mannvirkjum Skeiðarársands á nokkurra áratuga fresti, er kostnaður á hvert ár afskriftatímans ekki nema 100-200 milljónir króna.

Þetta er mikill miski af völdum náttúruhamfara, en ekki nema brot af skaðanum, sem við verðum árlega fyrir af völdum ráðamanna okkar. Afskipti kerfisins af landbúnaði einum kosta þjóðina marga milljarða á hverju ári. Við erum því vön herkostnaði af ýmsu tagi.

Raunverulega er skaðinn af völdum jökulhlaupsins á Skeiðarársandi fremur lítill, af því að manntjón varð ekkert. Engin búseta var á sandinum, sem hlaupið fór yfir. Við höfum orðið fyrir þyngri áföllum af völdum snjóflóða á Vestfjörðum á allra síðustu árum.

Náttúruhamfarir eru tíðar og margvíslegar hér á landi, eldgos og jarðskjálftar, snjóflóð og skriðuföll, stormar og jökulhlaup, auk þess sem hverir reynast skeinuhættir ókunnugum. Hamfarirnar ógna stundum fólki, en stundum hvorki fólki né efnislegum verðmætum.

Við getum reiknað með öflugum Suðurlandsskjálfta á næstu árum. Að mestu leyti erum við vel undir hann búin, þótt brýr séu ekki nógu margar og dreifðar. Mannvirki eru flest nógu traust á hættusvæðunum, en sérstakar aðstæður geta auðvitað leitt til mannskaða.

Við þurfum þó almennt að venja okkur mun harðar við að hafa hliðsjón af náttúruöflum, þegar við fjárfestum. Við eigum til dæmis ekki að reisa mannvirki í undirhlíðum viðsjárverðra fjalla, eins og við höfum svo víða gerzt sek um á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Starfsmenn samgöngukerfis og veitustofnana eru vanir að bregðast fljótt við, þegar náttúruöflin hafa geisað. Á hverjum vetri eru rafmagns- og símalínur tengdar að nýju í snarhasti og fumlaust. Á hverju ári er vegasambandi komið á að nýju fljótt og örugglega.

Viðbrögðin við tjóninu á Skeiðarársandi verða ekkert öðruvísi en þau, sem við kunnum vel. Með aðgerðum til bráðabirgða verður vegasambandi komið á að nýju á nokkrum vikum, raflína tengd að nýju, svo og ljósleiðari. Á meðan verða hannaðar varanlegri framkvæmdir.

Ekki er jökulhlaupið svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Samkvæmt fyrri reynslu leiðir aurburðurinn til þess, að strandlínan færist utar , meðal annars austur með ströndinni, á Breiðamerkursandi, þar sem mikil brú var komin í hættu vegna ágangs sjávar.

Náttúruhamfarir hafa líka þann kost, að þær þjappa þjóðinni saman, gefa okkur tækifæri til að finna til sameiginlegrar ábyrgðar. Utanaðkomandi erfiðleikar, hvort sem er af völdum máttarvalda eða óvina, eru svo mikilvægir, að stundum reyna þjóðir að framleiða óvini.

Við búum hér í návígi við fjölbreyttara úrval náttúruafla en flestar þjóðir, sem við þekkjum til. Við þurfum að sæta eldgosum og jarðskjálftum, skriðuföllum og snjóflóðum, stormum og jökulhlaupum. Allt þetta hjálpar okkur til að hugsa eins og ein samhent fjölskylda.

Hlaupið úr Grímsvötnum er hluti raunveruleikans, sem við búum við. Feiknakraftar hafa leyst sig úr læðingi, en samt aðeins valdið okkur hóflegu tjóni.

Jónas Kristjánsson

DV