Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar endurspeglar ráðherraskipti fjármála. Það er betra en frumvörp síðustu ára, enda gerir það ráð fyrir, að góðærið verði ekki notað til að auka hlut ríkisbúsins af þjóðarbúinu, heldur notað til að grynnka á skuldum ríkissjóðs.
Heildarskuldir hins opinbera eru um þessar mundir byrjaðar að lækka eftir langt hækkunartímabil. Þær eru komnar niður fyrir 50% af landsframleiðslu og munu fara niður undir 40% á næsta ári, ef fjárlagafrumvarpið stenzt. Ríkið er þannig hætt að lifa um efni fram.
Allt frá árinu 1985 hafa útgjöld ríkisins verið meiri en tekjur þess. Það þýðir, að rekstrarkostnaði samfélagsins var að hluta velt yfir á herðar afkomenda okkar með vöxtum og vaxtavöxtum. Ein króna af hverjum tíu hefur farið í að greiða vexti af þessum skuldum.
Þótt skuldasöfnun af þessu tagi hafi löngum þótt ásættanleg víðar á Vesturlöndum en hér, er ekki til neitt lögmál, sem segir, að annað megi gilda um fjármál ríkissjóðs en fjármál heimilanna. Sérhverri kynslóð ber að skila eigum, en ekki skuldum, til afkomendanna.
Fjárlagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir, að tekjur af sölu eigna ríkisins, til dæmis í bönkum, verði notaðar í reksturinn, heldur notaðar til að minnka skuldirnar. Með sölu stóreigna hefur ríkið fengið tækifæri til óráðsíu, sem ríkisstjórnin hyggst ekki nota sér.
Á kosningaárum hefur ríkisstjórnum fyrri tíma reynzt auðvelt að kaupa sér frið og vinsældir með frjálslegum fjárlögum, sem fela í sér skuldasöfnun. Í þetta sinn lætur ríkisstjórnin tvöfalt tækifæri fram hjá sér fara, annars vegar góðærið og hins vegar einkavæðinguna.
Hvað sem segja má um þessa ríkisstjórn á öðrum sviðum, verður ekki hægt að saka hana um ábyrgðarlausa fjármálastefnu á kosningaári. Þótt æpt sé úr öllum áttum á aukin fjárframlög, hefur hún ákveðið að spyrna við fótum af fullri fjárhagslegri ábyrgð og einurð.
Hér er eingöngu verið að hrósa niðurstöðutölum fjárlaga, en ekki innihaldi þeirra að öðru leyti. Í einstökum liðum er illa farið með peninga, svo sem í heilbrigðisráðuneytinu, sem fær í sinn hlut 78% landsframleiðslunnar, en er samt að missa allt niður um sig.
Hér er ekki heldur verið að hrósa öðrum þáttum stjórnarstílsins en fjárlagafrumvarpinu einu. Ríkisstjórnin hefur enga burði til að taka á neinu af þeim málum, sem heitast munu brenna á þjóðinni á næsta kjörtímabili, öðrum en fjármálum ríkisins.
Ríkisstjórnin er ekki að endurmeta afstöðu landsins til viðskiptalanda okkar á meginlandi Evrópu og til sameiginlegs gjaldmiðils þeirra. Hún er ekki að endurmeta verðgildi ósnortins víðernis og víkja frá efnahagslega úreltum virkjana- og stóriðjudraumum.
Ríkisstjórnin er ekki að endurmeta eignarhald þjóðarinnar á auðlindum hafsins og endurheimta það úr höndum sægreifanna. Hún er ekki að endurmeta fábjánalegt og endurgjaldslaust framsal erfðafræðilegra upplýsinga í hendur amerísks ævintýrafyrirtækis.
Með þessari gagnrýni er ekki verið að segja, að einhver önnur stjórnmálaöfl í landinu muni bjóða þjóðinni betri lausnir og trúverðugar lausnir á þessum mikilvægu framtíðarverkefnum. Fátt bendir raunar til, að skynsamlegir kostir verði í boði á næsta vori.
Og ríkisstjórnin hefur það umfram aðra flokka og flokkasamsteypur, að henni er heldur betur treystandi til að hafa áfram hóf á ríkisfjármálunum.
Jónas Kristjánsson
DV