Hófsemi endurvakin

Greinar

Brotthlaup öldungadeildar-þingmannsins James Jeffords úr flokki repúblikana í flokk demókrata mun hafa víðtæk áhrif á bandarísk stjórnmál, ekki sízt í utanríkismálum. Ágreiningsefni Evrópu og Bandaríkjanna verða ekki eins hastarleg og þau hefðu ella orðið.

Brotthlaupið hefur fært meirihlutann í öldungadeildinni og formennsku allra nefnda deildarinnar í hendur demókrötum. Joseph Biden tekur við utanríkismálanefnd úr höndum Jesse Helms, sem hefur verið til mikilla vandræða í samskiptum Bandaríkjanna við umheiminn.

Ekki verða öll skiptin til bóta. Fríverzlunarmaðurinn John McCain víkur úr formennsku viðskiptanefndar fyrir verndunarsinnanum Ernest Hollings. Að öðru leyti munu nýjar áherzlur með nýjum mönnum færa Bandaríkin nær sjónarmiðum annarra Vesturlanda.

Frekjulegar ákvarðanir stjórnar George W. Bush forseta um að hafna einhliða ýmsum fjölþjóðasamþykktum munu fá nákvæma meðferð nýs meirihluta í öldungadeildinni. Það gildir meðal annars um lofthjúpssáttmálannn frá 1997 og eldflaugasáttmálann frá 1972.

Minni líkur en áður eru á, að Bush dragi herlið Bandaríkjanna frá Bosníu og Kosovo. Ráðagerðir um eldflaugavarnir munu fá vandaðri meðferð en annars hefði orðið. Almennt verður meira tillit tekið til sjónarmiða bandamanna Bandaríkjanna en Bush virtist ætla að gera.

Fyrir byltuna í öldungadeildinni stóð til að stafla gjafmildum peningamönnum í sendiherrastöður vítt og breitt um Evrópu í stað diplómata og stjórnmálamanna, þar á meðal á mikilvægum og viðkvæmum stöðum á borð við London og París. Þetta verður sennilega stöðvað.

Fyrir byltuna stóð til að senda gamalkunna stuðningsmenn mannréttindabrota til að koma fram fyrir hönd Bandaríkjanna gagnvart Rómönsku Ameríku, þar á meðal Otto Reich og John Negroponte. Nýr meirihluti öldungadeildarinnar mun hakka þessa menn í spað.

Heima fyrir mun hinn nýi meirihluti hindra, að vinir forsetans í olíubransanum í Texas komi á fót olíuvinnslu í friðlöndum Alaska og fái skattaívilnanir fyrir að auka framleiðslu. Nýr meirihluti mun verjast árásum forsetans á vistkerfið, ellilaunafólk, sjúklinga og Hæstarétt.

Bush hefur hefnzt fyrir ofstækið. Hann tók alls ekkert tillit til, að hann fékk færri atkvæði en Al Gore í forsetakosningunum og þar með afar dauft umboð til þjóðfélagsbreytinga. Hann hefur hins vegar hagað sér eins og hann hafi umboð til róttækra breytinga.

Með þessu ögraði hann miðjumönnum í stjórnmálunum, sem eru fjölmennir meðal repúblikana í norðausturríkjunum og miðvesturríkjunum. Hann hagaði sér eins og róttæka suðurríkjadeildin í flokknum hefði náð öllum völdum í landinu. Svo hefur ekki reynzt vera.

Fyrir brotthlaup öldungadeildarmannsins stefndi í óefni í samskiptum Bandaríkjanna við umheiminn, einkum Vesturlönd og Sameinuðu þjóðirnar, svo sem kom í ljós, þegar Bandaríkin féllu í atkvæðagreiðslum úr mikilvægum nefndum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Eftir brotthlaupið á ríkisstjórn Bush afar erfitt með að halda áfram einhliða og samráðslausri utanríkisstefnu, sem erlendis hefur réttilega verið túlkuð sem frekja og yfirgangur. Minni líkur eru á, að Vesturlönd hafni forustu Bandaríkjanna og líti á þau sem róttæklingaríki.

Með valdaskiptunum í öldungadeildinni hefur James Jeffords endurvakið völd hófsamra miðjuafla í stjórnmálunum og gert vestrænni samvinnu mikinn greiða.

Jónas Kristjánsson

DV