Höft og tollar hefna sín

Greinar

Ef við viljum ekki aðild að Evrópubandalaginu og viljum ekki heldur leggja neitt marktækt af mörkum til að efla fríverzlun á vegum Tollasamvinnustofnunarinnar GATT, ættum við samt að reyna að geta útskýrt fyrir sjálfum okkur og öðrum, hvað við viljum yfirleitt.

Tilboð Íslands í tollasamvinnupúkkinu felur ekki í sér minnkun stuðnings við hefðbundinn landbúnað. Það felur í sér, að annars vegar er slakað á niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum og innflutningsbanni, en hins vegar teknar upp beinar byggðagreiðslur til bænda.

Við erum ekki einir um að reyna að leysa vandamálið með því að færa það til. Sjónhverfingar af þessu tagi eru algengar og viðurkenndar í alþjóðlegu samstarfi, svo sem í Fríverzlunarsamtökunum og Evrópubandalaginu. Tilboð annarra ríkja í GATT eru svipaðs eðlis.

Lýsing Halldórs Laxness í Innansveitarkróníku á hin um dæmigerða Íslendingi, sem hangir í aukaatriðum og fyllist skelfingu, ef komið er að kjarna málsins, á líka við um aðrar þjóðir. Fleiri en við missum málið, ef rök og skynsemi eru sett á oddinn. Líka í EB og GATT.

Brezkir hagfræðingar hafa reiknað út, að tólf sinnum dýrara sé að vernda innlenda framleiðslu en að laga sig að fríverzlun. Öll rök hníga að því, að verndarstefna skaði mann sjálfan meira en aðra. Samt eru Bretar eins og aðrir alltaf að reyna að vernda hið gamla.

Tollar og innflutningshöft fela í sér, að innlendum neytendum er neitað um ódýra vöru frá útlöndum. Hótanir um að halda uppi tollum og höftum eða auka jafnvel tolla og höft eru í raun fremur ofbeldi gegn innlendum neytendum en gegn erlendum framleiðendum.

Samt sitja fulltrúar um 100 ríkja á fundum í GATT og tefla um tilboð og hótanir. Allir vita, að lægri tollar og höft eru meira í eigin þágu en annarra og að hærri tollar og höft skaða mann sjálfan meira en hina. Samt er málinu teflt út í sameiginlegan ósigur allra.

Fremur slæmar horfur eru í viðræðunum í GATT um minnkun tolla og hafta. Bandaríkin eru tilbúin með margvíslega múra, sem þau hóta, að reistir verði, ef Evrópubandalagið heldur áfram dauðri verndarhendi yfir hefðbundnum landbúnaði í aðildarríkjum þess.

Fiskur hefur ekki átt upp á pallborðið í þessum deilum, sem og í öðrum viðræðum um tolla. Flestir aðrir en Íslendingar líta á fisk sem eins konar landbúnaðarafurð, sem beri að vernda sem mest. Ekkert bendir til, að höft á alþjóðlegri fiskverzlun verði minnkuð.

Tilboð Íslands um innflutning á osti og pylsum er betra en ekki neitt, en hjálpar raunar lítið upp á sakirnar. Við megum búast við, að hömlur á fiskverzlun verði ekki minnkaðar og að margar þjóðir taki smám saman upp byggðastefnuverndun í eigin útgerð og fiskvinnslu.

Við bætum ekki þá stöðu með því að halda áfram að neita okkur um ódýra búvöru frá útlöndum. Því dýrari sem erlend höft verða okkur, þeim mun brýnna er fyrir okkur að fara að hagnast á meintri þörf annarra þjóða til að losna við óseljanlegar birgðir af búvöru.

Við þurfum meira en flestar aðrar þjóðir á milliríkjaverzlun að halda. Alþjóðleg hreyfing í átt til aukinna hafta mun skaða okkur meira en aðra. Þess vegna eigum við að byrja á að rífa niður okkar tolla og höft, jafnvel þótt aðrar þjóðir vilji alls ekki gera slíkt hið sama.

Ef við viljum ekki verða próventukarlar Evrópubandalagsins og viljum róa einir í heimsins ólgusjó, verðum við að hafna haftaklisjum og fara að taka rökum.

Jónas Kristjánsson

DV