Höfuðhögg í Seattle

Greinar

Seattle-fundur Heimsviðskiptastofnunarinnar fór út um þúfur, áður en hann hófst. Uppþotin við fundarstaðinn eru aðeins eftirmáli, sem staðfestir, að stofnunin er ekki fær um að mæta nýjum aðstæðum, sem fylgja breyttu gildismati margra nútímamanna.

Allur vindur var úr stofnuninni, áður en fundurinn hófst. Í stað þess að leggja á borð raunhæfar tillögur um aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum, notuðu flest ríki íslenzku hugmyndina, sem felst í að þú lækkir tolla og aðrar hömlur, en ég hækki hins vegar hvort tveggja.

Litli brandarinn var svo blaðafundur Eyjabakkajarls Íslands og fulltrúa World Wildlife Fund um sjávarútvegsmál. Halldór sat þar á palli með hinum hræðilegu umhverfisverndarsinnum, gæsaskyttum, borgarbúum og grænmetisætum, sem Austfirðingar hafa varað við.

Ráðuneyti aðildarríkja Heimsviðskiptastofnunarinnar eru full af hagfræðingum og öðrum sérfræðingum, sem vita ósköp vel, að allir græða á lækkun tolla og annarra viðskiptahafta og að þeir græða mest, sem lengst ganga í átt til frelsis, jafnvel þótt þeir geri það einhliða.

Í stað þess að selja þjóðum heims þessi sannindi, fer orka hinna lærðu manna í að ræða um gagnkvæmni í afnámi viðskiptahindrana á þann hátt, að báðir aðilar “gefi eftir”. Orðalagið að gefa eftir þýðir, að þú sættir þig við þinn eigin gróða af því að minnka hömlur.

Meðan ekki er meiri kraftur en þetta í sannfæringunni um frjálsa verzlun, mun hún ekki hafa frekari framgang í heimsviðskiptum. Víða verða gerðir tvíhliða samningar um gagnkvæmt smotterí, en ekki einu sinni um íslenzka hesta og norskar kartöfluflögur sællar minningar.

Á sama tíma og siðferðiskrafturinn hefur hrunið í hugmyndafræði frjálsrar verzlunar, hafa komið í ljós hliðaverkanir af áður auknu frelsi. Það hefur framkallað vandamál, sem eru ofarlega í hugum fólks og samtaka fólks, svo sem sjá má af óeirðunum í Seattle.

Heimsviðskiptastofnunin hefur engin svör við nýjum straumum í náttúruvernd, sem meðal annars berjast gegn sölu erfðabreyttra matvæla frá Bandaríkjunum til Evrópu. Í fullkominni blindni samþykkti stofnunin að refsa Evrópusambandinu fyrir viðskiptahömlur.

Heimsviðskiptastofnunin hefur ekki heldur nein svör við fullyrðingum um versnandi stöðu smælingja um allan heim vegna óbeinnar skerðingar á fullveldi ríkja í þágu fjölþjóðafyrirtækja, sem færa sig til, þegar félagslegar stjórnvaldsaðgerðir valda þeim óþægindum.

Þegar þar á ofan er farið að tala um að gefa Kína tækifæri til að koma illu af stað innan Heimsviðskiptastofnunarinnar, er fokið í flest skjól fyrir henni, sem átti að gera okkur öll rík, en skortir hugmyndafræðilegt bein í nefinu til að halda sómasamlegan fund í Seattle.

Eigi að síður römbuðu fulltrúar meira en 100 ríkja til Seattle án neinnar dagskrár og án neinnar vitneskju um, hvernig hún yrði búin til. Þeir eru núna á hlaupum milli einkafunda, hundeltir af verkalýðs- og náttúruverndarsinnum og jafnvel svonefndum grænmetisætum.

Ef nokkru sinni hefur verið haldinn fundur án takmarks og tilgangs, þá er það fundur Heimsviðskiptastofnunarinnar í Seattle. Fundurinn var orðinn að meiriháttar álitshnekki, áður en hann hófst og að allsherjar siðferðishruni eftir táragas á sjónvarpsskjám.

Fundurinn sýnir, að valdamenn og vísir menn frá hundrað löndum geta ráfað um stefnulaust, án þess að hafa hugmynd um, hvernig þeir fengu höfuðhöggið.

Jónas Kristjánsson

DV