Höfuðóvinurinn er íslam

Greinar

Íslam verður Vesturlöndum og hugmyndaheimi okkar hættulegri höfuðóvinur en Sovétríkin voru. Í stað járntjalds um þvera Evrópu er að myndast öflugra tjald, sem liggur um þvert Miðjarðarhaf og Svartahaf, milli Vesturlanda í norðri og íslamskra landa í suðri.

Roðinn í austri varð að gjalti í ljóma Vesturlanda, enda var ágreiningurinn fremur um leiðir en markmið. Sovétríkin gáfust upp, þegar ljóst varð, að kerfi þeirra var lakari leið til að ná sama árangri og Vesturlönd kepptu að. Austrið rann inn í vestrið á síðasta ári.

Íslam er annars eðlis en austrið. Múhameð spámaður býður annars heims trúarbrögð í stað þessa heims trúarbragða Marx spámanns og arftaka hans. Múhameð býður hugmyndafræði, sem er í mikilli sókn í þriðja heiminum og etur þar til kapps við vestræna hugmyndafræði.

Lýðræði í vestrænum skilningi á erfitt uppdráttar í heimi íslams, þótt það renni ljúflega um nærri alla Austur-Evrópu og búi við vaxandi gengi í þeim hluta þriðja heimsins, sem ekki er íslamskur. Þessi þröskuldur milli vesturs og íslams er alls ekki að lækka.

Í sumum ríkjum íslams er valdabarátta milli vestrænt hugsandi fólks og strangtrúarmanna. Í Tyrklandi eru völdin í höndum hinna vestrænu og í Egyptalandi eru þeir í ótryggri valdastöðu. Víðast annars staðar í heimi íslams eru strangtrúarmenn í öflugri sókn.

Þeir unnu mikinn kosningasigur í fyrri umferð þingkosninga í Alsír. Skoðanakannanir benda til, að í seinni umferðinni nái þeir nægilegum meirihluta til að breyta stjórnarskránni. Og það var einmitt kosningamál þeirra að breyta Alsír í klerkaveldi á grundvelli Kóransins.

Þetta mun í framkvæmd leiða til hörkulegs réttarfars og villimannlegra refsinga að mati Vesturlandabúa. Það mun leiða til vaxandi ójafnaðar milli karla og kvenna. Það mun leiða til markvissrar herferðar gegn vestrænu gildismati í efnahagsmálum og mannréttindamálum.

Armar íslams teygja sig líka til Vesturlanda. Þekktur rithöfundur verður að fara huldu höfði á Vesturlöndum, af því að klerkar íslams hafa lýst hann réttdræpan og hafa lagt fé til höfuðs honum. Vesturlönd geta ekki tryggt honum eðlilegt líf á grunni vestræns öryggis.

Svo langt ganga þessi áhrif, að íslamskir trúarleiðtogar á Vesturlöndum taka undir morðhótanir klerkanna. Eftir áramótin ítrekaði íslamskur trúarleiðtogi í Bretlandi, að íslömum væri skylt að hafna brezkum lögum, ef þeir telja þau brjóta í bága við reglur íslams.

Ástandið er orðið alvarlegt, ef ríkisborgarar í vestrænum ríkjum lýsa opinberlega yfir, að fólk eigi ekki að taka mark á lögum viðkomandi ríkis. Slíka leiðtoga ber hiklaust að svipta borgararétti og senda til íslamskra klerkaríkja, þar sem þeir eiga betur heima.

Vesturlönd mega ekki verða svo lin, að þau sætti sig við, að eigin borgarar hvetji til beinna brota á lögum og stjórnarskrá. Hugmyndaheimur Vesturlanda gerir ráð fyrir, að andóf og önnur andstaða við ríkjandi reglur fari eftir fastmótuðum leikreglum vestræns lýðræðis.

Vesturlönd þurfa líka að vera viðbúin að taka afstöðu til straums fólks, sem mun flýja ríki íslams af efnahagslegum og trúarlegum ástæðum. Vaxandi klerkaveldi mun fylgja aukin grimmd og aukin fátækt, sem mun ýta við fólki, er telur sér henta betur vestrænt líf.

Erfiðast verður að fást við íslamska hryðjuverkamenn, sem munu koma sér upp skæðari vopnum, þar á meðal atómsprengjum, er rúmast í ferðatöskum.

Jónas Kristjánsson

DV