Höggvið á hnútinn.

Greinar

Alþingi á nú margra kosta völ á nýrri kjördæmaskipan. Stjórnarskrárnefnd hefur lagt fram ýmsar hugmyndir og aðrar hafa fæðst í viðræðum flokksformanna og þingflokksformanna. Spilin liggja á borðinu og bíða ákvörðunar.

Fjölmargir kjósendur yrðu ákaflega vonsviknir, ef þingflokkarnir næðu ekki að mynda meirihluta um einhverja leið til að draga úr misvægi atkvæðisréttar. Slík vonbrigði mundu stórefla óbeit kjósenda á stjórnmálaflokkunum.

Beztur er kostur, sem varð ofan á í viðræðum Kjartans Jóhannssonar, Ólafs G. Einarssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann hefur verið kynntur rækilega hér í blaðinu og fengið góðar undirtektir manna á meðal.

Þessi kostur gerir ráð fyrir þriggja þingmanna fjölgun, sem er tiltölulega hóflegt í samanburði við flesta aðra kosti. Af átta þingmanna fjölgun á suðvesturhorninu yrðu þá ekki nema fimm á kostnað fimm fámennustu kjördæmanna.

Í þessu felst eins konar tilraun til meðalvegs milli þeirrar meirihlutaskoðunar þjóðarinnar, að ekki skuli fjölga þingmönnum, og þess álits margra þingmanna, að ekki megi fækka þingmönnum dreifbýlisins.

Persónulegir hagsmunir eru í húfi. Sein dæmi má nefna, að í síðustu kosningum hefði Karvel Pálmason orðið að víkja fyrir tveimur flokksbræðrum sínum, Ólafi Björnssyni og Finni Torfa Stefánssyni, ef þessi aðferð hefði þá gilt.

Þetta veldur því, að ekki er eining í flokkunum þrem, sem líklegastir voru til að styðja kostinn. Andófsmenn í þingflokkunum hafa margvíslegt annað á hornum sér, en raunveruleg orsök er nagandi ótti um atvinnumissi.

Slíkur vandi mun fylgja öllum hugmyndum, sem gera ráð fyrir einhverri tilfærslu núverandi þingsæta til suðvesturhornsins, – sem gera ráð fyrir minni heildarfjölgun þingmanna en sem nemur fjölguninni í Reykjavík og á Reykjanesi.

Stjórnarskrárnefnd hefur bent á ýmsa aðra kosti, sem fela í sér um það bil þriggja þingmanna fjölgun, og eru þannig svipuð málamiðlun og sá kostur, sem hér er mælt með. Þeir munu sæta sams konar andófi þingmanna.

Til viðbótar hafa þeir þann galla, að samkvæmt þeim á að fjölga uppbótarmönnum á kostnað kjördæmiskosinna þingmanna. Í einni útgáfunni er gert ráð fyrir 41 kjördæmakosnum og 22 landskjörnum þingmönnum af samtals 63.

Miklu hreinlegra er að hafa alla þingmenn kjördæmakosna, því að þá vita kjósendur, hverja þeir styðja til þingsetu með atkvæði sínu. Á móti kemur svo ný reikningsaðferð, sem gætir hagsmuna þeirra flokka, er minna mega sín.

Þingmenn Framsóknarflokksins eru flestir andvígir minnkun á misvægi atkvæða, þótt þeir fari varlegar með þá skoðun en í hin fyrri skipti, sem nýjar kosningareglur hafa verið í undirbúningi. Og þeir hugsa vel sitt ráð.

Dæmigert er útspil Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra, er segir fáránlegt, að Alþýðubandalagið sem samstjórnarflokkur Framsóknar sé að krunka við stjórnarandstöðuflokkana sér á parti um kjördæmamálið.

Með ýmsum slíkum hætti verður reynt að bregða fæti fyrir eina umtalsverða málið, sem gæti orðið þingmönnum þessa kjörtímabils til nokkurs álitsauka. Og senn eða ekki verða breytingasinnar á þingi að höggva á kjördæmahnútinn.

Jónas Kristjánsson

DV