Höggvum Evrópuhnútinn

Greinar

Þegar aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hefjast loksins, mun tiltölulega fljótt koma í ljós, hvort grundvöllur er fyrir samningum. Ágreiningsefnin verða fá. Allt stendur raunar og fellur með skilgreiningu málsaðila á eðli og eignarhaldi fiskimiðanna við Ísland.

Áhugamál okkar eru önnur en þeirra, sem hingað til hafa samið um aðild. Reynslan sýnir, að við eigum sem aðilar að Efnahagssvæði Evrópu auðvelt með að laga okkur að reglum, sem eiga uppruna sinn í Evrópusambandinu. Við erum í rauninni sveigjanleg þjóð.

Töluvert af reglunum, sem við notum í daglegu lífi okkar, koma beint eða óbeint frá Evrópusambandinu. Samkvæmt reynslunni finnst okkur ekkert athugavert við að nota margvíslega fyrirhöfn þess og þýða beint fyrir okkar þarfir og spara þannig tíma og kostnað.

Hins vegar hafa sumar þjóðir, sem með ærinni fyrirhöfn og kostnaði hafa komið sér upp eigin reglum, sem ekki falla að reglum Evrópusambandsins, sumpart átt erfitt með að sætta sig við að þurfa að hliðra til. Í mörgum tilvikum höfum við ekki slíka fortíðarbagga.

Þegar til kastanna kemur, verða nærri öll mál fljótafgreidd í viðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Eina erfiða umræðuefnið verður eðli og eignarhald fiskimiðanna við Ísland. Þar munum við hljóta að standa föst á skilgreiningu, sem endurspeglar raunveruleikann.

Við lítum svo á, að fiskimiðin séu jafn fastgróinn hluti sögu okkar og hagkerfis og tilveru okkar yfirleitt og akrar eða námur eru í öðrum löndum. Þar sem slíkar auðlindir séu ekki sameiginlegar þar, þurfi fiskimiðin hér ekki heldur að vera sameiginleg auðlind.

Hvort sem samningsaðilar Evrópusambandsins fallast á slíka skilgreiningu eða ekki, þá munu þeir skilja hana. Þeir munu fljótlega sjá, að Ísland tapar á aðild að sambandinu, ef þetta er ekki rétt skilgreint og muni ekki skrifa undir samninga um óhagkvæma niðurstöðu.

Flestir geta skilið, að fólk skrifar ekki undir samninga, sem leiða til tjóns fyrir það. Eðli samninga er, að verið er að reyna að finna niðurstöðu, sem málsaðilum er til hagsbóta. Takist slíkt ekki, verður ekki gagn að samningaviðræðum og þær falla niður af sjálfu sér.

Það á ekki að vera erfitt fyrir Evrópusambandið að fallast á, að fiskimiðin við Ísland séu af sagnfræðilegum og efnahagslegum ástæðum öðruvísi tengd landi og þjóð en fiskimið við önnur lönd. Um þetta munu viðræður okkar og Evrópusambandsins fyrst og fremst snúast.

Samningaviðræður, sem snúast um eitt grundvallaratriði, eru fljótlegri en viðræður, sem snúast um endalausa röð smáatriða. Þess vegna verða viðræður okkar við Evrópusambandið auðveldari en viðræður Svía, Finna og Austurríkismanna voru á sínum tíma.

Meðan ekki reynir á þetta, missum við af margvíslegum hagnaði af aðild að Evrópusambandinu, öðrum en þeim, sem lýtur að þessu eina atriði. Þess vegna hefur verið og er ástæðulaust að bíða bara og bíða. Enda veit raunar enginn, eftir hverju er verið að bíða.

Andstæð þjóðarhagsmunum er sú stefna flestra núverandi og fyrrverandi ráðamanna þjóðarinnar að núa saman höndum í vandræðum sínum, fara undan í flæmingi, stinga höfðinu í sandinn, reyna að fresta málinu og segja aðild ekki vera til umræðu á þessu stigi málsins.

Við þurfum að höggva hnútinn. Við þurfum annaðhvort að ganga í Evrópusambandið eða hætta endalausri bið eftir einhverju, sem enginn veit hvað er.

Jónas Kristjánsson

DV