Hola í vegg

Veitingar

Notalegustu kaffihúsin eru þau, sem á ensku mundu kallast Hola í vegg. Þar komast kannski átta manns inn í senn, ef þeir sætta sig við að fá ekki sæti. Kaffifélagið á Skólavörðustíg er dæmi um holu í vegg. Þar eru fjórir kollar og þar er hægt að kíkja í blöðin. Haiti var lengi hola í vegg í Tryggvagötu, notalegur staður. Svo fluttist kaffihúsið í verbúðirnar við Geirsgötu í margfalt stærra húsnæði. Jafnframt fór það að bjóða hádegissúpu og jafnvel mat. Við það dreifðist áherzlan út og suður. Haiti er ekki lengur hola í vegg, heldur hefðbundnari veitingastofa með dálítið ringluðum persónuleika.