Höldum okkur við efnið

Greinar

Ef stjórnmálamenn lentu í vandræðum í fjölmiðlum í gamla daga, þótti sumum þeirra þægilegt að grípa til samsæriskenninga. Þeir fluttu þá kenningu, að fjölmiðlar væru notaðir gegn sér. Þeir héldu fram, að óvinir sínir væru að nota fjölmiðla til að koma höggi á sig.

Eitt síðasta dæmið var íslenzkur ráðherra, sem varð fyrir nokkrum árum að segja af sér í kjölfar fjölmiðlaumræðu um afglöp hans á sviði spillingar. Hann hélt fram, að óvinir innan flokks síns hefðu komið umræðunni af stað til að hefta framgang hans innan flokksins.

Hann fjallaði lítið um efnislegt innihald fréttanna, sem urðu honum að falli, en þeim mun meira um hugarfarið, sem hann taldi liggja að baki þeirra. Málið snérist að hans mati ekki um það, sem stóð eða sagði í fréttunum, heldur um tilurð þeirra að tjaldabaki.

Þannig mátti afgreiða öll óþægileg fjölmiðlamál sem hluta af samsæri, er ekki þurfi að taka málefnalega afstöðu til. Einkum var ætlazt til, að stuðningsmennirnir gleyptu kenninguna, enda var þá til siðs, að flokksbræður héldu með sínum manni fram í rauðan dauðann.

Skylt þessu var sú árátta margra embættismanna að hafa meiri áhuga á tilurð frétta úr valdastöðvum þeirra heldur en efnisinnihaldi þeirra. Þeir fóru hamförum við að reyna að finna lekann og stöðva hann, en sinntu því síður að laga það, sem sagt var frá í fréttunum.

Sem betur fer hafa viðhorf af þessu tagi látið undan síga. Þau seljast einfaldlega ekki, af því að notendur fjölmiðlanna hafa meiri áhuga á innihaldi fréttanna heldur en kenningum um dularfulla fæðingu þeirra. Pólitíkusar nota því sjaldan þessa undankomuleið.

Þá gerist það allt í einu, að einn stóru fjölmiðlanna byrjar sjálfur að taka þátt í samsæriskenningunum. Fréttastofa ríkissjónvarpsins flutti ekki fréttir af meintum ritstuldi Séðs og heyrðs, heldur þeim mun meiri af meintu hugarfari að baki frétta annars fjölmiðils.

Reikna má með, að slíkt gerist á minni háttar útvarpsstöðvum, þar sem eins konar skemmtikraftar segja fréttir án þess að kunna neitt til fagsins. Það er athyglisverðara, að fréttastofa hins hefðbundna sjónvarps á Íslandi skuli ekki vera betur mönnuð en þetta.

Komið hafði í ljós, að Séð og heyrt var ekki dótturblað nákvæmlega eins blaða á Norðurlöndum, heldur óheimilt eftirrit þeirra. Voru nafngreindir eigendur norrænu blaðanna meðal annars búnir að fá íslenzka lögfræðistofu til að kanna, hvernig bregðast mætti við.

Þetta var ekki frétt að mati fréttastofu ríkissjónvarpsins. Það var hins vegar frétt, að frásagnir annars fjölmiðils af málinu væru sprottnar af meintri samkeppni milli fjölmiðla. Samsæriskenningin, sem stjórnmálamenn lögðu af, er nú vöknuð á vettvangi fórnardýra hennar.

Svona fer, þegar fjölmiðlum er ekki stjórnað af yfirmönnum, sem sjálfir vita betur. Svona fer, þegar ófaglegir bjálfar vaða hindrunarlaust uppi og fá að verða sér og stofnun sinni til skammar á almannafæri. Þetta niðurlægir ríkissjónvarpið auðvitað sem fréttamiðil.

Verra er þó, ef þetta vekur gamla áráttu, er blundar með sumum þeirra, sem eru í sviðsljósi fjölmiðlanna, þannig að þeir hætti að svara efnislega því, sem þar stendur eða þar er sagt, og fari í staðinn á nýjan leik að fjölyrða um hugarfarið að baki fréttanna.

Þá verða alvörufréttamenn á öðrum fjölmiðlum enn á ný að hafa fyrir því að segja við kenningasmiðina: Heyrðu nú, við skulum halda okkur við efnisatriðin.

Jónas Kristjánsson

DV