Hollur og illur bjór

Greinar

Bjór er hollur eins og annað áfengi, ­ í hófi. Margar, umfangsmiklar rannsóknir, sem staðið hafa áratugum saman í Bandaríkjunum, benda til, að áfengi, í mjög litlu magni, víkki æðarnar og dragi úr líkum á einkennis sjúkdómum nútímans, hjarta- og æðasjúkdómum.

Gallinn er sá, að þetta hóf felst í afar litlu magni, svo sem einum litlum bjór, einum snafsi eða tveimur rauðvínsglösum á dag. Það er hóf, sem temja sér tiltölulega fáir af þeim, sem á annað borð nota áfengi. Það er raunar innan við magn hefðbundinnar menningardrykkju.

Í gamalgrónum vínlöndum, svo sem við Miðjarðarhafið, er drukkið mun meira en þessu nemur, án þess að til ofdrykkju eða ósiðar sé talið. Sjúkrahús í þessum löndum eru þéttsetin fólki, sem þjáist af skorpulifur af völdum hefðbundinnar og óátalinnar dagdrykkju.

Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við skorpulifur. Það stafar af, að við drekkum ekki daglega, heldur um helgar, og leyfum lifrinni að jafna sig á milli. Líklegt má telja, að sterki bjórinn muni auka dagdrykkju og þar með líkur á skorpulifur hér á landi.

Við höfum hins vegar meira en nóg af öðrum sjúkdómi, sem sjaldgæfari er í gamalgrónum vínlöndum. Það er áfengissýki eða alkóhólismi. Margar bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós, að sá sjúkdómur er líkamlegs eðlis og felst í röngum efnaskiptum í lifur.

Í áfengissjúklingum eru efnaskipti áfengis í lifur of hæg, svo að acetaldehýð hleðst þar upp og breytir boðskiptum uppi í heila. Þetta leiðir oft til ýmissa annarra vandræða, sem geta verið sálræn, félagsleg eða fjárhagsleg og gjarna fylgja í kjölfar alkóhólisma.

Menn drekka ekki af því, að þeir eigi bágt, heldur eiga þeir bágt, af því að þeir drekka. Þessi orðaleikur segir, að áfengissýki verður ekki hamin með sálrænum, félagslegum eða fjárhagslegum aðgerðum, heldur með þeim einfalda hætti, að menn hætti alveg að drekka.

Sem betur fer eru horfur á, að fljótlega verði hægt að mæla mjög snemma á ferli áfengissýkinnar, hvort menn þjáist af henni. Þá verður hægt að benda verðandi alkóhólistum á hina einu gagnaðgerð, sem reynslan sýnir, að dugir og notuð er hér á meðferðarstofnunum.

Ekki verður í fljótu bragði séð, að ný áfengistegund á borð við sterkan bjór muni auka áfengissýki hér á landi. Ákveðinn hluti þjóðarinnar býr í lifrinni við röng efnahvörf, sem leiða til áfengissýki, hvort sem það er með hjálp bjórs, borðvína eða brenndra drykkja.

Einn versti áfengisvandi okkar felst í uppákomum, sem fylgja mikilli drykkju á skömmum tíma, einkum um helgar, til dæmis meiðingum og manndrápum, sem eru stöðugt í fréttum. Engar líkur eru á, að sterkur bjór muni magna hinn mikla brennivínsofsa, sem fyrir er.

Í heild má segja, að ólíklegt sé, að bjór auki að ráði áfengisvandamál okkar, önnur en skorpulifur, og að líklegt sé, að bjór geti orðið til heilsubótar mörgum þeim, sem annars fengju hjartasjúkdóma. Bjórinn hefur kosti og galla eins og annað áfengi, sem okkur er leyft að nota.

Vangaveltur af þessu tagi geta leitt til þeirrar niðurstöðu, að gallar bjórsins séu mikilvægari en kostirnir, það er að segja að bjórinn sé meira illur en hollur. Samt er ekki ástæða til, að þeir, sem slíku trúa, hindri aðra en sjálfa sig í að nota þessa umdeildu og útbreiddu vöru.

Ríkisvald, sem leyfir almenna sölu tíu sinnum lífshættulegra efnis, tóbaks, á ekki að meina bjórinn þeim meirihluta þjóðarinnar, sem langar að nota hann.

Jónas Kristjánsson

DV