Holt

Veitingar

Notalegasta bókaherbergi

Í Holti hefur verið innréttað bókaherbergi með voldugum leðursófum, þungum bókaskápum með gömlum bókum á bak við gler, svo og merkum málverkum eins og annars staðar í húsinu. Þessi stofa er einn bezt heppnaði hluti staðarins, þungur og virðulegur eins og matsalur Þingholts. Hún er til dæmis mun notalegri en barinn, sem þar á undan var innréttaður og minnir á biðstofu í fínni læknastöð.

Gestir geta fengið sér fordrykk í bókaherberginu, svo og kaffi eftir matinn. Það er skemmtileg viðbót við þetta gamaltrausta veitingahús, sem viðskiptahöldar landsins sækja svo mjög. Hins vegar hefur ekki verið lagað skilrúmið í sjálfum matsalnum, sem er of hátt og gerir staðinn of þröngan og of hljóðbæran. Einn galli þess er, að þjónar eiga erfitt með að sjá, þegar nýir gestir koma og bíða úti við salardyr.

Bezta leið gesta til að losna við slíkt er að fara inn á bar til að gera vart við sig og biðja um fordrykki og matseðla inn í bókaherbergi. Allt frá því er þeir hafa þannig náð athygli kerfisins, er þjónusta staðarins mjög góð og fagmannsleg. Gestum líður vel, hvort sem er í djúpum leðurstólum bókastofunnar eða í þægilegum armstólum matsalarins.

Flest almennileg matarvín, sem fást í Ríkinu, eru á boðstólum í Holti, þar á meðal vín, sem staðarmenn flytja inn sjálfir. Matseðillinn er líka langur og kemur víða við. Ekki þætti mér ólíklegt, að matreiðslan mundi verða enn betri, ef hún þyrfti ekki að spanna yfir næstum fimmtíu fasta rétti.

Athyglisvert er, að fiskréttir eru fáir á fastaseðli Holts, en þeim mun fleiri á seðli dagsins. Þar með tekur eldhúsið fullt tillit til þeirrar staðreyndar, að framboð á fiski er dagbundið og að geymsla á fiski í frystikistu gerir hráefnið mun lakara. Þetta mætti verða öðrum húsum til eftirbreytni.

Hin ágæta stefna gafst hins vegar ekki nógu vel í prófun tveggja spennandi fiskrétta af seðli dagsins. Bæði steiktur steinbítur í kaperssósu og steiktur karfi í pernod voru í of bragðsterkum sósum, sem földu fiskbragðið. Sérstaklega var anísinn í karfanum áberandi. Hins vegar var fiskurinn í báðum tilvikum létt eldaður og úr góðu hráefni, svo að úr þessu hefði orðið ágætis matur, ef sósurnar hefðu verið mildari.

Smokkfiskur var frábær

Þétt laxafroða var tvisvar á seðli dagsins. Hún var ágæt, þótt laxabragðið væri dauft, borin fram með grásleppuhrognum, steinselju og rauðri papriku.

Hráskinka með melónu og ristuðu brauði, kölluð parmaskinka, hafði þornað í köntunum og var misheppnuð. Hörpuskelfiskur í hvítvíni með spergli og kapers var meyr og góður, þótt sósan minnti frekar á hveiti en sýrðan rjóma. Enn betri var hörpuskelfiskur pattaya, pönnusteiktur í sætsúru soði, mjög góðu.

Sniglagrautur af dagseðli var mjög góður matur. Sniglarnir voru meyrir og sósan var hæfilega mild og góð. Nokkuð mikið var notað af smjöri í þennan rétt eins og raunar suma fleiri rétti staðarins.

Bezti forrétturinn, sem prófaður var, reyndist vera smokkfiskur lissabon, steiktur í olíu, borinn fram með lauk, sveppum, ferskri steinselju og hrísgrjónum. Þetta var satt að segja alveg frábær matur.

Með forréttunum var sameiginlega borið fram ristað franskbrauð, volgt undir dúknum.

Með aðalréttunum, sem prófaðir voru, öðrum en öndinni, er síðar verður getið, var borið fram staðlað salat ágætt, með ísbergi, papriku, þunnum gúrkusneiðum og rjómasósu. Með öndinni var borið gott waldorf-salat með eplum og rjómasósu.

Hakkað hreindýrabuff á seðli dagsins var ágætur matur, enda hæfilega eldað. Enn betri var þó sósan, sem fylgdi. Hún var með einkar ákveðnu hreindýrabragði. Með þessu voru bornar fram hvítar kartöflur og rifsberjasulta.

Grillsteiktar grísalundir með appelsínusósu, blómkáli, hrísgrjónum, steinselju og bakaðri kartöflu voru með því bezta af slíku tagi, sem fáanlegt er hér á landi, enda er Holt í góðum tengslum við helztu svínabú landsins. Appelsínuhúðin og -sósan réðu þó miklu um, hversu góður rétturinn var.

Lambalundir uppvafðar og þræddar á spjót, bornar fram með blómkáli, steinselju og bakaðri kartöflu, voru bleikar og meyrar, en ekki safaríkar. Sósan var fallega rjómuð og blómkálið alveg mátulega eldað, eins og annað blómkál í þessari prófun. Eldunartímar eru í lagi í Holti.

Ofnsteikt önd með appelsínusósu, bakaðri peru, litlum, grænum baunum, appelsínusneiðum og ferskri steinselju var bragðgóð, en minnti á kjúkling, þótt stærðargráðan væri önnur. Appelsínusósan var góð.

Hátindur í turnbauta

Hátindur prófunarinnar var turnbauti með ferskum sveppum og béarnaise-sósu. Kjötið var frábært, bragðsterkt og hæfilega grillbrennt. Betri nautasteik er vart hægt að fá.

Jarðarberjapæ og bláberjapæ af eftirréttavagni dagsins, hvort tveggja með þeyttum rjóma, reyndust vera hinir ljúfustu réttir, einkum bláberjapæið.

Jarðarberjakraumís var nokkuð bragðsterkur, en sítrónuís með súkkulaðisósu og döðlum var hinn bezti eftirréttur.

Kaffi var sterkt og gott, borið fram með súkkulaðikúlum í bókaherberginu.

Fastaseðill og dagsseðill eru á svipuðu verðlagi. Miðjuverð súpa er 165 krónur, forrétta 245 krónur, fiskrétta 375 krónur, kjötrétta 510 krónur. Þriggja rétta veizla með kaffi og hálfri flösku af víni á mann ætti að kosta 973 krónur að meðaltali. Í hádeginu kostar súpa og aðalréttur um 420 krónur.

Holt er í verðflokki og gæðaflokki á svipuðum slóðum og Grillið á Hótel Sögu, eitt af örfáum allra beztu veitingahúsum landsins. Bæði eru þó heldur síðri en Arnarhóll, sem virðist hafa stungið af aðra staði.

Jónas Kristjánsson

DV