Holt

Veitingar

Það er gaman að skrifa um veitingasalinn á Hótel Holti. Það er miklu ánægjulegra að skrifa um það, sem vel er gert, heldur en hitt, sem miður fer. Og notalegast er að hafa tækifæri til að skrifa um það, sem bezt er gert.

Holtið ber af öðrum veitingahúsum landsins. Allt fellur þar í einn farveg matargerðarmusteris. Húsakynni eru virðuleg og menningarleg. Þjónusta er menntuð, en samt engan veginn stíf. Matseðillinn er fjölbreyttur og breytilegur. Og eldamennskan er hin bezta í landinu.

Síðan Eiríkur Ingi tók við stjórnartaumum í eldhúsi Holts hefur staðurinn verið Mekka íslenzkrar matargerðarlistar. Eins og Rúnar við Tjörnina og Úlfar í Þrem frökkum er Eiríkur hugmyndaríkur og farsæll kokkur og líklega hressastur þeirra þriggja um þessar mundir.

Á hverjum degi eru í boði fjölmargir réttir dagsins. Þar eru yfirleitt fimm eða sex sjávarréttir dagsins með fjórum tilheyrandi forréttum, fimm villibráðarréttir dagsins og þrír kjötréttir dagsins með þremur tilheyrandi forréttum.

Allir þessir seðlar eru breytilegir frá degi til dags og frá hádegi til kvölds. Enginn matstaður kemst með tærnar, þar sem Holt hefur hælana á þessu sviði. Og þumalputtareglan segir, að því hærra sem hlutfall dagsrétta er á móti fastaréttum, þeim mun betra sé veitingahúsið.

Sjávarfang og villibráð

Holt hefur um árabil haft forustu um að kynna Íslendingum nýjar tegundir af sjávarfangi. Þar hefur verið hægt að fá hörpufisk og krækling í skelinni, búra og gjölni, krabba og ígulker, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Sjávarréttir eru ein sérgreina Holts. Önnur er villibráð á borð við villigæsir og villiendur, rjúpur og hreindýr. Hin þriðja er vínlisti, sem er einstakur í sinni röð hér á landi. Úrval góðvína endurspeglar aðild staðarins að veitinga- og hótelsamtökunum Relais & Chateau.

Þessi vín eru í öllum verðflokkum, en hæst tróna dýrgripir á borð við höfuðvín búgarðanna Mouton, Lafite og Margaux á Bordeaux-vínsvæðinu. En líka er hægt að fá Santa Cristina hálfflöskuna á 1320 krónur og Pinot d’Alsace hálfflöskuna á 1947 krónur.

Helzt má út á matreiðslu Holts setja, að stöðlun í með læti dregur úr gildi fjölbreytninnar á matseðlinum. En grænmetið er mildilega eldað, nákvæmlega eins og fisk urinn. Villibráðin er stundum lítillega of mikið elduð, enda er slíkt sennilega við hæfi flestra gesta.

Hversdagslegt verðlag

Í hádegi kostar þriggja rétta máltíð um 1595 krónur. Að kvöldi kostar hún um 3075 krónur af sjávarréttaseðli og um 3435 af villibráðarseðli, allar tölur fyrir utan drykkjarföng. Þetta er fremur dýrt, en ekki dýrara en í fjölmörgum veitingahúsum, sem eru á mun lægra plani.

Fyrir stjórnmálaskriffinn, sem hversdagslega hrærist á jaðri pólitíkur, þar sem fáir eru nokkurs nýtir og flestir hrokagikkirnir klúðra verkum sínum, er indæl hvíld að geta einstöku sinnum fjallað um starfsgrein, sem Íslendingar kunna fremur vel, matargerðarlist. Og tækifæri til að fjalla um Holt er eins og jólin séu komin.
J
ónas Kristjánsson

DV