Holt, Sommelier, Laugaás

Veitingar

Frábært á Holti í hádeginu
Frábært er að borða hádegismat í Listasafninu á Hótel Holti við Bergstaðastræti 37. Þar má velja milli fjögurra forrétta og fjögurra aðalréta og snæða þríréttað fyrir 1900 krónur fastar. Það er notalega lágt verð fyrir aðgang að sjálfri kjölfestunni í matargerðarlist landsins. Ef menn geta komið því við, er hagkvæmast að fara út að borða í hádeginu á Holti, enda er þjónustan þá jafngóð og endranær.
Styrkur Listasafnsins er hefðbundin og bragðmild “nouvelle” matreiðsla. Upp á síðkastið hefur eldhúsið samt byrjað að daðra við hina nýju og bragðsterku “fusion” matreiðslu, væntanlega vegna samkeppni frá Sommelier við Hverfisgötu. Þetta kom fram í forréttum, parmaskinku í rjúpusúpunni og hvítlauk á hörpuskelinni, en ristaður túnfiskur og steiktur þorskur fengu að halda hinni góðu hefð.

Nýr matseðill á Sommelier
Því miður er spútnikinn við Hverfisgötu 46 ekki lengur opinn í hádeginu, svo að Listasafnið hefur á þeim tíma dags enga samkeppni á toppnum. Sommelier heldur aðeins uppi merki matargerðarmusteris á kvöldin, en nú með nýjum matseðli. Verðið á þríréttuðu er um það bil 4.900 krónur með kaffi.
Þar eru spennandi forréttir á borð við engiferlegna hámeri með mangófroðu og laxaþynnur með svörtum sesamgljáa, girnilegir aðalréttir á borð við hreindýrasteik með súkkulaði-jarðarberjasósu og þorsk í kartöflujakka. “Fusion” æsingur nútímatízkunnar nær hámarki í eftirréttinum M&M&M, sem felur í sér skyr, mysuost og marineruð hindber.

Fryst rauðspretta á Laugaási
Þrátt fyrir hækkandi verð hefur Laugaási við Laugarásveg 1 farið svo hastarlega aftur, að nú er farið að nota þar frystan fisk við matreiðslu, jafnvel rauðsprettu, sem verður sérkennilega óæt við slíka meðferð. Í endurminningunni lifir síbreytilegur matseðill níunda áratugarins með mörgum ferskum fiskréttum. En nú er hún Snorrabúð stekkur og Laugaás úr sögunni sem fiskréttastaður.
Þessa varð vart þegar fyrir ári, en þá saknaði ég þess ekki svo mjög, því að boðnir voru ýmiss konar villibráðarseðlar á hagstæðu verði. Nú hefur þessu framtaki farið aftur, því að á þessari vertíð er bara boðin heiðagæs, fremur þurr og seig, þótt hún hafi verið hæfilega rauð. Á næsta borði pantaði maður snitsel og fékk með því franskar kartöflur í stað hinna hvítu, sem áttu að fylgja. Þetta sýnir allt mikið og vaxandi kæruleysi í eldhúsi.
Eitt gott hefur gerzt á Laugaási. Dúkarnir og hinar hvimleiðu glerplötur hafa verið teknar af borðum, svo að nú sjást aftur upphaflegu borðplöturnar með jurtabrenndu múrsteinunum fallegu.

Jónas Kristjánsson

DV