Frá Sveinatungu í Norðurárdal að Melum í Hrútafirði.
Holtavörðuheiði var lengst af eini færi fjallvegurinn að vetri til milli Suður- og Norðurlands. Var nefnt “að fara sveitir” gagnstætt því “að fara fjöll” en þá var farið um Arnarvatnsheiði eða Tvídægru.
Þegar Kolbeinn ungi Arnórsson fór með mikinn flokk að Þórði kakala Sighvatssyni í nóvemberlok 1242 reið hann suður Tvídægru og til baka Holtavörðuheiði. Farið var upp hjá Sveinatungu og komið niður fyrir framan Mela í Hrútafirði. Vegur þarna var víða grýttur og blautur. Heiðin sjálf frá Fornahvammi var talin ein þingmannaleið eða 37.5 km. Litlum sögum fer af Holtavörðuheiði í Sturlungu, enda kusu vígamenn hennar frekar að fara Arnarvatnsheiði og síðan beint niður í þá dali, þar sem þeir áttu sökótt við menn. Svo að njósn bærist síður af ferðum þeirra.
Förum frá Sveinatungu til norðurs með austurhlið Sveinatungumúla og vestan Norðurár, reiðleið um Kattarhrygg að gangnakofa í Fornahvammi. Þar var lengi hótel og veitingasala. Þaðan förum við til norðausturs eftir gömlum vegum meðfram Norðurá og yfir hana hjá Heiðarsporði. Förum síðan norður með ánni, meðfram Rauðhól og vestan við Bláhæð í 360 metra hæð. Síðan austan með Holtavörðuvatni og Grunnavatni, vestan núverandi þjóðvegar 1, norður með Miklagilskvísl og vestur fyrir gljúfur Miklagils og niður í Grænumýrartungu, þar sem lengi var gisting, en er nú í eyði. Áfram förum við með vegi vestan við Hrútafjarðará að gömlu brúnni yfir ána og áfram að gömlu símstöðinni á Melum í Hrútafirði.
27,3 km
Borgarfjörður-Mýrar, Húnavatnssýslur
Skálar:
Fornihvammur: N64 54.120 W21 11.550.
Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Hrútafjarðará, Sölvamannagötur, Jörfamúli.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort