Holtið

Veitingar

Þótt Holt sé eitt af beztu veitingahúsum landsins og hafi lengi verið traustasti og jafnasti gæðastaðurinn, hefur matreiðsla þess stundum verið mistæk upp á síðkastið. Fiskur er oft eins lítið eldaður og hann þarf að vera, en fyrir kemur, að hann er heldur lengi í eldun.

Matreiðslan er frumleg og matseðillinn breytilegur. Sem dæmi má nefna ristaðan humar. Í eitt skipti var hann í geislum út frá sítrónukryddaðri hrísgrjónaköku með granaostþaki. Í öðru tilviki í geislum út frá mjúku hörpufiskfrauði, borinn fram með kantarellu-sveppum og gulrótar-ediksósu. Í báðum tilvikum var humarinn meyr og fínn.

Aðrir forréttir hafa verið misjafnir. Rauð og fín var reyksoðin villigæs með góðri balsam-ediksósu. Ristaður kolkrabbi var hins vegar ekki nógu meyr, borinn fram með hæfilega kryddaðri hvítlaukssósu með rósmarín.

Stundum verður bilun í matreiðslu aðalrétta. Í hádegi var ofbökuð smálúða á salatbeði með kryddlegnum villisveppum, spergli og spínati. Við sama tækifæri var ristaður skötuselur ekki nógu meyr, borinn fram með súrsætri ananassósu.

Skömmu síðar var flest komið í lag að kvöldi, þó ekki villigæsabringa, sem var of þurr. En rósrauð rjúpa var afar meyr og fín, með einiberjasósu og hreðkumauki, svo og sveskjublönduðu innmatarmauki. Og rósrauð villiandarbringa var frábær, borin fram á salati og spínati, með pönnusteiktum kartöflusneiðum og mildri kardimommu-appelsínusósu.

Eftirréttir í hádegi voru ekki í frásögur færandi, þrenns konar tertur, þar á meðal ein, sem var einkum tvenns konar og tvílitt súkkulaði, og önnur, sem var ostakaka með súkkulaðisósu.

Mun betri voru tveir frumlegir eftirréttir að kvöldi. Þá var á boðstólum afar stökk napóleonskaka með banana- og appelsínubragði, með ananasbúðingi og heilum trönuberjum í ljósri eggja-rommsósu, sem sögð var dökk í matseðli. Ennfremur eldsteikt jarðarber í afar fínni sósu úr Mascarpone líkjör og appelsínubarkarþráðum.

Engrar bilunar gætir í ytra umhverfi Holts. Þjónusta er í úrvalsflokki sem jafnan áður. Árgangamerktur vínlistinn er hinn vandaðasti í landinu, greinilega undir áhrifum frá Chateau et Relais samtökunum, sem hótelið á aðild að. Þar er auðvitað langur listi af frönskum chateaux, en einnig úrval frá fjarlægum löndum, svo sem Ástralíu og Chile.

Einn helzti galli staðarins er, að innkoman er boruleg úr horni anddyris og beint að eldhúsdyrum. En það gleymist, þegar gestir eru sokknir í þægilega stóla innan um gamalkunn risamálverk íslenzkra meistara, þungan eðalvið, steinda glugga, úrvals borðlín og glæsilegan borðbúnað.

Holtið er dýrt, um 4.100 krónur að kvöldi fyrir þrjá rétti og kaffi, að víni frátöldu. Í hádeginu er staðurinn þó beinlínis ódýr, býður þriggja rétta máltíð af úrvali fjögurra forrétta, sex aðalrétta og eftirrétta af vagni fyrir 1495 krónur. Það eru sannkölluð kjarakaup, þegar matreiðslan stenzt væntingar.

Jónas Kristjánsson

DV