Hómilía bólgubankans

Greinar

Allt frá því er Seðlabankinn var töfraður upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum fyrir þremur áratugum og unz hann er nú orðinn að svörtum steinkastala með 149 manns á launum, hefur hann átt mikinn þátt í að framleiða hina heimatilbúnu verðbólgu Íslands.

Seðlabankinn hefur gegnt þessu verðbólguhlutverki með ýmsum hætti, til dæmis með því að haga seglum eftir pólitískum vindum. Hann hefur alltaf þjónustað ríkisstjórnina, hver sem hún hefur verið, einkum með því að búa til handa henni seðla, sem ekki var til fyrir.

Óhófleg seðlaprentun Seðlabankans hefur stuðlað að verðbólgu. Hið sama er að segja um svokallaða frystingu hans á sparifé. Það var og er engin frysting, heldur upptaka peninga af lánamarkaði til notkunar í óarðbær eða arðfjandsamleg hugsjónalán á vegum stjórnvalda.

Í þessu skyni hefur Seðlabankinn verið laginn við að töfra fram þoku til að leyna ásetningi sínum og ríkisstjórnarinnar. Orðið “frysting” er frábært dæmi um þetta og minnir á orðaleiki Georges Orwells. Önnur orðaslæða var “gengisbreyting” yfir gengislækkun.

Sá orðaleikur Seðlabankans er frá tímum, er bankinn taldi sig þurfa að búa í haginn fyrir gengislækkanir. Nú er öldin önnur, því að við völd er fastgengisstjórn, sem bankinn telur sig þurfa að þjónusta. Orðið “gengisbreyting” er horfið og gamla orðið nothæft að nýju.

Áhugamenn um holtaþokuorðfæri ættu að kynna sér hómilíur þær, sem formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur flutt andagtugum leiðtogum stjórnmála og fjármála á svokölluðum ársfundi bankans í þrjá áratugi. Sérstaklega er gaman að lesa þær allar í einni bunu.

Hómilíur þessar eru kennslubók í japli og jamli, en hafa þó grunntón, sem felst í að segja pakkinu, að vandamál þess komi ekki að ofan, heldur sé íslenzka þjóðin með þeim ósköpum gerð, að hún eyði um efni fram. Engin ráð séu við því nema prédikanir bankastjórans.

Seðlabankinn er ekki einn um ósvífna frávísun ábyrgðar af þessu tagi. Fyrr í þessari viku var haft eftir efnahagsráðunaut ríkisstjórnarinnar, að fastgengis stefna hennar væri komin á fínan grundvöll, af því að hún væri búin að koma á hallalausum rekstri ríkissjóðs.

Staðreyndin er hins vegar, að halli ríkisins er mikill og fer vaxandi, einkum á þeim sviðum, sem eru utan við svokallaðan A-hluta fjárlaga. Þessi mikli og vaxandi halli veldur því, að dæmi fastgengisstefnunnar gengur ekki upp og bakar þjóðinni gífurleg vandræði.

Fastgengisstefna ríkisstjórnar og Seðlabanka hefur magnað hungur þjóðarinnar í óeðlilega ódýrar vörur frá útlöndum og tilsvarandi skuldasöfnun. Það hungur slær þó ekki við hungri ríkisvaldsins, sem hefur að undanförnu gengið fram fyrir skjöldu við að slá erlend lán.

Athyglisvert er, að hinir bersyndugu, viðskiptaráðherrann og bankastjórinn, keppast um að kenna kauphöllum og kaupleigum um skuldasöfnunina. Hefur þó verið sýnt fram á, að lán þeirra eru skiptimynt í samanburði við fúlgurnar, sem kerfið sjálft hefur sníkt.

Í þessu sem öðru kemur fram, hvert er meginhlut verk Seðlabankans. Það er að slá upp þoku, svo að fólk sjái ekki afglöp bankans og stjórnvalda og trúi prédikunum formanns bankastjórnar um, að syndirnar komi ekki að ofan, heldur frá almenningi sjálfum.

Í fyrradag var flutt nýjasta hómilían af þessu tagi. Ekki er ástæða til að taka mark á henni fremur en ástæða var til að taka alvarlega hinar fyrri.

Jónas Kristjánsson

DV