Hömlur á heilsukostnaði

Greinar

Heilbrigðisgeiri ríkisins hefur vikizt undan því að taka í alvöru á sjálfvirkri aukningu kostnaðar af óbreyttri þjónustu. Slagurinn um innritunargjöld á spítala er afleiðing af, að heilbrigðisgeirinn hefur ekki náð tökum á útgjöldunum, einkum þeim hluta, sem fer til sjúkrahúsa.

Sjúkrahústækni eykst sífellt og verður dýrari. Ný og dýrari lyf eru sífellt að koma til sögunnar. Heilbrigðisgeirinn er í vonlausu kapphlaupi við þessa þróun, sem hefur aðeins jaðaráhrif á heilbrigði þjóðarinnar. Í staðinn er vanrækt það, sem einfaldara er og árangursríkara.

Ríkisspítalarnir fara ekki eftir fjárlögum og segja slíkt ekki hægt. Þar sem ráðamenn þeirra og heilbrigðisráðuneytið skirrast við að fara eftir leikreglum þjóðfélagsins, er fjármálaráðuneytið að reyna að ná mismuninum með því að koma innritunargjöldum í fjárlagafrumvarpið.

Það mun ekki takast í þetta sinn. Í staðinn verður skorið af þjónustu ríkisspítalanna. Því miður verður skorið eitthvað, sem er einfalt og nytsamt, en reynt að halda í nýjustu og dýrustu tízkulækningarnar, sem koma heilbrigðismálum þjóðarinnar aðeins að jaðargagni.

Þannig mun darraðardansinn halda áfram, unz heilbrigðisráðuneytið og ríkisspítalarnir fara að spyrja um skilvirkni kerfisins og byrja að raða verkefnum í forgangsröð með nokkurri hliðsjón af lækkunaráhrifum þeirra á veikinda- og slysakostnað þjóðarinnar.

Þessir aðilar neyðast til að átta sig á, að þak er komið á útgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála. Þjóðin hefur einfaldlega ekki ráð á meiri útþenslu. Það er svo verkefni ráðuneytis og ríkisspítala að byrja að velja og hafna af viti, rétt eins og hver önnur hagsýn húsmóðir.

Allir aðilar í þjóðfélaginu þurfa að velja og hafna. Sumt af þessu vali getur verið mjög erfitt í framkvæmd. Í heilbrigðisgeiranum þurfa mannúð og hagsýni að koma saman að málum, svo að niðurstaðan verði í senn skilvirk og réttlát. En það þýðir ekki að draga lappirnar.

Innritunargjald er aðeins ein leiðanna til að draga úr aðsókn að sjúkrahúsum og ekki endilega sú bezta. Með aukinni heilsugæzlu á frumstigi vandamálanna og hreinum forvörnum má einnig draga úr þörfinni á þjónustu hátæknivæddra stofnana á borð við ríkisspítalana.

Sumar forvarnir geta meira að segja staðið undir sér fjárhagslega. Til dæmis mætti setja gjald á sykur- og sætuefnainnihald matvæla með sama hugarfari og gjald er sett á tóbak og áfengi og nota tekjurnar til að fræða fólk um heilsuspillandi áhrif sykurs og sætuefna.

Ef hægt væri með slíkum hætti að minnka notkun þjóðarinnar á þessum efnum um fjórðung, væri sjálfkrafa búið að snarminnka álagið á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um alveg ókannaða stigu í heilbrigðisgeiranum.

Pillu- og tækjasalar eru fyrirferðarmiklir í heilbrigðisgeiranum. Læknatímaritin eru fjármögnuð af slíkum aðilum utan úr heimi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, enda byggjast vandræði heilbrigðisgeirans á oftrú ráðamanna hans á nýjustu pillur og nýjustu tæki.

Heilbrigðisgeirinn þarf allur að endurskoða tilgang sinn og tilverurétt í þjóðfélaginu. Hann þarf að leita að upphafi sínu, finna rætur sínar og hugsa dæmið á nýjan leik. Hann verður hvort sem látinn hætta að leika lausum hala í kostnaðarliðum ríkisfjárlaga og ríkisreikninga.

Darraðardansinn um kostnað heilbrigðisgeirans er þegar farinn að skaða þjónustu hans við fólkið í landinu. Mál er, að honum linni og við taki vitrænn sparnaður.

Jónas Kristjánsson

DV