Þegar börn og unglingar hafa frelsi til að velja námsgreinar, er ekki við að búast, að nám þeirra henti alltaf nákvæmlega sem grundvöllur að því háskólanámi, sem það vill stunda. Eðlilegt er, að háskóladeildir geri sérkröfur, sem svarað sé í öldungadeildum menntaskóla.
Ef stúdent á málasviði vill verða verkfræðingar, er eðlilegt, að hann verði að taka eina eða tvær annir á stærðfræðisviði til að verða tækur í háskóladeildina. Þetta segir nákvæmlega ekki neitt um, að aukið valfrelsi sé óhentugt í grunnskólum og framhaldsskólum.
Lítið er vitað um, hvaða námsbrautir henti sem inngangur að háskólanámi. Fyrir áratug var málið lauslega kannað í háskólanum og virtist þá sem hefðbundnir skólar og valfrelsisskólar stæðu nokkuð jafnt að vígi. Þessi könnun olli úlfaþyt og varð ekki fram haldið.
Hafi ráðamenn Háskólans einhverja skoðun á undirbúningi nemenda, sem þangað koma, væri eðlilegast, að þeir tækju upp þráðinn frá því fyrir áratug og létu kanna að nýju, hver verða námsafdrif nemenda með mismunandi forsögu. Það á ekki að vera feimnismál.
Hitt er svo önnur saga, að grunnskólar og framhaldsskólar hafa önnur markmið en að rækta háskólastúdenta. Sumpart eru þeir leikvöllur hugmyndafræði, sem ekki býr nemendur undir erfitt háskólanám, heldur stuðlar að jöfnuði nemenda í fúski og leikjum.
Áþreifanlegri sagnfræði og landafræði hefur til dæmis verið breytt í þokukennda samfélagsfræði. Það er örvæntingarfull aðferð til að ná til þeirra nemenda, sem engan áhuga hafa á að læra neitt. Slíkir nemendur móta grunnskóla og framhaldsskóla í vaxandi mæli.
Grunnskólarnir eru að verulegu leyti geymslustofnanir, svo að foreldrar geti unnið í friði. Sem geymslustofnanir eru þeir þó fremur óhentugir, því að skóladagurinn er sundurslitinn, lítil aðstaða er til eiginnáms í skólum, og kennarar eru sí og æ á fundum eða í fríum.
Börn eru sjö ár í barnaskóla til að læra að lesa, skrifa og reikna. Það þætti lítil arðsemi á mælikvörðum atvinnulífsins, jafnvel þótt einnig sé tekið tillit til þess hlutverks skólanna að geyma börn, svo að þau séu ekki í lausagangi heima hjá sér eða úti á götunum.
Framhaldsskólarnir hafa smám saman verið að breytast úr forskóla fyrir háskólanám í eins konar dulbúið atvinnuleysi. Þeir hafa það hlutverk að halda ungu fólki frá vinnumarkaði, enda fetar allur þorri þess skólabrautina, meira eða minna áhuga- eða meðvitundarlítið.
Vinnubrögð í skólum stuðla að því, að fólk sigli átakalítið gegnum þá. Sem dæmi má nefna hópvinnu, sem felur í sér, að einn í hópnum vinnur verkið og skrifar skýrslu um málið. Úr hópvinnu koma fjölmennir hópar af fólki, sem venst því að fljóta áfram á baki annarra.
Stjórnunarfræðin segir, að hópvinna sé ekki líkleg til árangurs. Nefndir, ráð og hópar geta verið til ýmissa hluta nytsamleg, en ekki til að vinna. Verkin eru alltaf unnin af einstaklingum. Þessi staðreynd er bönnuð í félagshyggju, fúski og leikjum skólakerfisins.
Þegar skólar eru að miklu leyti geymslustofnanir og dulbúið atvinnuleysi, þegar þeir sætta sig við litla arðsemi við að kenna lestur, skrift og reikning, og þegar þeir færa sig í auknum mæli yfir í hópvinnu og aðrar tegundir af fúski og leikjum, er ekki von á góðri útkomu.
Þannig eru vandræði skólakerfisins að miklu leyti önnur en þau, sem eru til umræðu, þegar haldin eru kjaftaþing um efnið eða fundið að vangetu háskólanema.
Jónas Kristjánsson
DV