Horfum fram, ekki aftur.

Greinar

Í nútímanum vegnar þeim þjóðum bezt, sem fljótastar eru að losa sig úr viðjum hefðbundinna atvinnugreina og að leggja út í nýjar greinar. Þær njóta hins mikla arðs, sem fylgir því að vera jafnan í fararbroddi.

Flestar þjóðir leggja því miður mikið af mörkum til að vernda hefðbundnar atvinnugreinar, bæði sem þátt í byggðastefnu og vegna traustrar valdastöðu þessara greina. Hrikalegasta dæmið um slíkt er íslenzkur landbúnaður.

Á alþjóðlegum vettvangi er offramleiðsla í slíkum greinum. Útflutningsuppbótum, margvíslegum öðrum styrkjum og undirboðum er beitt til að koma framleiðslunni út. Þannig brenna flestar þjóðir gífurlegum fjármunum.

Landbúnaðurinn er ekki lengur eina dæmið um slíka byrði. Fjöldi iðngreina er kominn í þennan ofsetna flokk, til dæmis vefnaður, stáliðja og skipasmíðar. Jafnvel bílaiðnaðurinn er að færast yfir í verndaða flokkinn.

Bezta dæmið um hið gagnstæða er tölvutæknin, sem margfaldast með hverju árinu. Einkum er örtölvutæknin spennandi, af því að þar er þenslan mest og möguleikarnir mestir fyrir fjármagnslitla karla eins og okkur.

Í tölvutækninni er lögmálið um mikilvægi stærðar heimamarkaðarins ekki eins ósveigjanlegt og í flestum öðrum greinum. Menn hafa ótal möguleika á að sérhæfa sig í þáttum, sem hafa sérstakt gildi heima fyrir.

Hér á Íslandi eru sjávarútvegur og fiskiðnaður sjálfkjörinn vettvangur fyrir upprennandi þjónustuiðnað í tölvutækni, einkum örtölvutækni. Og raunar hafa þegar verið stigin mikilvæg skref á þessari braut.

Að minnsta kosti tvö íslenzk fyrirtæki framleiða nú eyðslumæla í skip. Þeir sýna, hve mikilli olíu er eytt hverju sinni og hvernig eyðslan breytist með breyttum hraða og breyttu skrúfusniði. Þeir spara þegar milljarða.

Annað þessara fyrirtækja hefur þegar samið um sölu á 2000 eyðslumælum til útlanda. Það er Tæknibúnaður hf., sem hefur selt Simrad í Noregi þessa mæla. Fyrir þá fást um 20 milljónir nýkróna inn í þjóðarbúið.

Og mælarnir eru einmitt framleiddir af þeim, sem einna minnst mega sín, öryrkjunum. Það er fólkið, sem verst gengur að fá vinnu, er setur eyðslumælana saman. Öryrkjarnir eru þannig komnir í hóp mikilvægra starfsmanna.

Menntunargrunnurinn er töluverður hér á landi, þótt skólar mættu gjarna leggja meiri áherzlu á tölvur. Á síðustu árum hefur risið upp nokkur stétt sérfræðinga, sem geta fengizt við uppfinningar og vöruþróun.

Það er meira að segja nokkuð langt síðan Íslendingar urðu fyrstir manna til að framleiða gjaldmælatölvur í leigubíla, einmitt þegar verðbólgan í heiminum gerði slíka mæla nauðsynlega víðar en hér.

Því miður höfðu hugvitsmennirnir þá ekki bolmagn til að fylgja uppfinningu sinni eftir af nauðsynlegum krafti. Það urðu því aðrir, sem erfðu þennan markað, en íslenzka fyrirtækið varð því sem næst gjaldþrota.

Eitthvað erum við að byrja að læra af reynslunni, því að atvinnumálanefnd Reykjavíkur hefur gefið Tæknibúnaði hf. 400 þúsund nýkróna húsaleigustyrk. Þannig eigum við að byrja að styrkja framtíðina og hætta að styrkja fortíðina.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið