Frá Sturluflöt í Suðurdal í Fljótsdal um Hornbrynju til Eyjólfsstaða í Fossárdal í Berufirði.
Forn verzlunarleið Fljótsdælinga til Berufjarðar. Gamlar götur og vörðubrot sjást sums staðar á þessum slóðum. Fossárdalur er leynidalur, sem sést ekki frá hringveginum. Þar voru þó sagðir fjórtán bæir, þegar mest var, en er nú bara einn, Fossárdalur. Í dalnum er mikið af krókum milli ása, fullum af lyngi og kjarri og blómum. Í Fossá er fjöldinn allur af fallegum fossum. Í dalnum eru fjölbreyttar bergtegundir eins og víðar á sunnanverðum Austfjörðum. Nokkur veiði er í Líkárvatni og er nafn þess talið stafa af slysförum. Sunnan vatnsins fundust mannabein, sem talin eru af strokufanganum Þorgrími Hermannssyni, er slapp úr haldi á Djúpavogi 1837.
Förum frá Bessastöðum suður að brúnni austur yfir Jökulsá. Síðan með þjóðvegi 935 suður að Sturluflöt. Þar förum við austur yfir drög Gilsárdals suðaustur í Hornbrynjuslakka norðan fjallsins Hornbrynju og þaðan suðsuðaustur að fjallaskálanum Bjarnarhíði. Þaðan förum við stuttan kafla suðaustur með jeppaslóð, sem liggur að þjóðvegi um Öxi. En förum fljótt suður úr slóðinni að Líkárvatni austanverðu. Við förum austsuðaustur í Fossárdal og fylgjum slóð meðfram Fossá austur að eyðibýlinu Eyjólfsstöðum í Fossárdal.
36,3 km
Austfirðir
Skálar:
Bjarnarhíði: N64 50.853 W14 51.507.
Nálægar leiðir: Flosaleið, Kelduá, Sauðárvatn, Ódáðavötn.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins