Hornið

Veitingar

Ítölsk þjónusta

Hornið, einn frumkvöðla nýrrar veitingamennsku hér á landi, heldur sínu striki. Framboð og gæði staðarins er óbreytt frá því fyrir ári, að öðru leyti en því, að nú hefur bætzt við stuttur og snaggaralegur vínlisti, einn hinn bezti hér á landi.

Þar eru öll hvítvínin, sem máli skipta, Wormser Liebfrauenstift, Gewürztraminer, Edelfräulein og Bernkasteler Schlossberg. Einnig velflest rauðvínin, Chateau Talbot, Geisweiler Grand Vin, Chateauneuf-du-Pape og Chianti Classico.

Bernkasteler Schlossberg og Chianti Classico eru seld í glasatali, 12-13 krónur glasið. Það er mjög til fyrirmyndar, því að eitt vínglas með mat er í flestum tilvikum hæfilegt. Þá eru La Ina og Tio Pepe sérrí, svo og Noval portvín, einnig seld í glasatali.

Þjónustan á Horninu er ítölsk eins og áður, einkar þægileg og vingjarnleg, þótt hún sé ekki eins lærð og víða annars staðar. Og umhverfið er óbreytt, -hinar listrænu innréttingar hafa ekki látið á sjá.

Matargestir ættu að halla sér að rétti dagsins með súpu. Hann er yfirleitt vel gerður, alténd breytilegur frá degi til dags. Fastaseðillinn er hins vegar búinn að vera lengi óbreyttur og fer að verða leiðigjarn.

Kaffið var indælt

Spergilsúpan með dagsréttinum var snarpheit og góð, ekki með of linum spergli, borin fram með heitu, snittubrauðslaga kryddbrauði. Blönduðu sjávarréttirnir, sem fylgdu á eftir, rækja, kræklingur, lúða og hörpudiskur í karrísósu, voru góðir, einkum rækjan.

Pizzur eru sérgrein Hornsins, væntanlega til að leggja áherzlu á ítalskan svip hússins, þótt pizzur séu raunar ættaðar frá Bandaríkjunum. Eins og vera ber eru þetta beztu pizzur bæjarins, sérbakaðar á staðnum.

Í öðrum réttum fastaseðilsins er það framsetningin, sem skiptir mestu máli. Réttirnir hvíla gjarna á hrísgrjónabeði og hafa hrásalat í kantinum. Þeir eru lystugir að sjá og valda yfirleitt ekki vonbrigðum.

Í síðustu prófun Vikunnar reyndist graflúða mild og góð, dálítið mikið krydduð, borin fram með sætri og góðri sinnepssósu. Spaghetti Bolognaise var hversdagslegt, en gott. Lambakjöt á teini, borið fram með hvítlauksbrauði og mintusmjöri, var líka góður matur.

Hornið býður bæði upp á ísa og osta í eftirrétt og er hvorugt í frásögur færandi. Meira máli skiptir kaffið úr espresso-vél, eitt hið allra bezta hér á landi. Þar á ofan býður staðurinn upp á fleiri en eina tegund af tei.

Rúmlega meðalverð

Réttur dagsins með súpu kostaði 68 krónur á Horninu. Meðalverð forrétta var 42 krónur, súpa 18 krónur, pitsa 48 krónur, sjávarrétta 68 krónur, kjötrétta 76 krónur, sæturétta 30 krónur og osta 35 krónur.

Þriggja rétta máltíð með hálfri flösku af ódýru víni og kaffi ætti því að meðaltali að kosta 170 krónur á Horninu. Það er heldur dýrara en á venjulegum millistöðum með 155-159 króna verðlagi, en mun ódýrara en í fínu 192-213 króna stöðunum.

Að þessu sinni fær Hornið sex í einkunn fyrir mat, níu fyrir vínlista, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnin með tveimur, koma út 71 stig af 100 mögulegum.

Vegin meðaleinkunn Hornsins er því sjö.

Jónas Kristjánsson

Vikan