Hornið

Veitingar

Stóru ljósaskermarnir eru horfnir, en að öðru leyti hefur Hornið á Pósthússtræti og Hafnarstræti verið eins frá upphafi. Í tvo áratugi hefur þetta rólega og litla Ítalíuhorn með stórum gluggum einskis útsýnis staðizt umbyltingar veitingabransans og er hvorki betra né verra en áður.

Hæð risaglugganna frá götu og pottaplöntur í gluggunum valda því, að gestir eru ekki berskjaldaðir, þegar þeir sitja fyrir innan á nettum kaffihúsastólum á grófu flísagólfi við kringlóttar marmaraplötur á stálfæti. Þetta er notalegt reykhús með timburveggjum, gifsskreytingum og bláum lit á súlum og bitum.

Tóbaksfnykurinn er inngróinn, enda fjölmenna hér í hádeginu kvennaþing, þar sem allar reykspúa í takt, en á kvöldin fjölmenna smábarnafjölskyldur og reykja ekki. Staðurinn er ekki bara fjölskylduvænn, heldur líka einstaklingavænn, því að hér sitja menn einir og lesa dagblöðin úr blaðagrindinni.

Þjónustufólk er gott eins og venjulega hér á landi, man hver pantaði hvað, setur vatn í karöflum og volgar brauðkollur með álsmjöri á borð. Pappírsþurrkur eru eins þunnar og hægt er, án þess að sjáist í gegn. Matreiðslan byggist á pítsum og vel gerðum pöstum og kann ýmislegt fleira með sóma, en er þó gefin fyrir að hrúga ýmsu kraðaki á diska. Bökuð kartafla fylgir öllum aðalréttum og mjúkt hvítlauksbrauð mörgum þeirra.

Súpur dagsins reyndust vera aðall staðarins, til dæmis ítölsk grænmetissúpa tær, falleg og góð, með fjölbreyttu grænmeti. Einnig indversk grænmetissúpa, svipuð að gerð, en karríkrydduð. Gott hrásalat með fetaosti, þrenns konar hnetum og tvenns konar ólífum var of mikið olíuvætt. Eggjakaka með ristuðu brauði var einnig góð.

Hæfilega skammt elduð var tagliatelle-pasta dagsins með sjávarréttum, ýsu, kræklingi, hörpudiski og rækjum, en ýsan var ofelduð. Spaghetti Orientale var líka hæfilega eldað, hóflega karríkryddað, með rækjum og grænmeti.

Skelfisk-risotto var ekki síður gott, í mótaðri köku á miðjum diski, með kræklingi í skelinni, hörpudiski, rækjum og sóltómötum í kring, svo og fallegu hrásalati á hliðardiski. Fiskitvenna var lakari, lúðan að vísu fín, en karfinn þurr, með bakaðri kartöflu, sem stakk í stúf.

Terta hússins reyndist vera brún djöflaterta með súkkulaðikremi og þeyttum rjóma. Það, sem kallað var tiramisú á matseðli, reyndist vera skrítin lagterta með tveimur dísætum kremlögum, en ekki minnsta votti af ostbragði, furðulegt fyrirbæri og engan veginn gott. Báðar terturnar voru með þeyttum rjóma. Kaffi var gott, sérstaklega espresso, eitt hið allra bezta í bænum.

Þriggja rétta máltíð með kaffi kostar hér 3.400 krónur og pasta í hádeginu kostar 985 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV