Hornsskriður

Frá Dys í Hornafirði til Syðra-Fjarðar í Papafirði í Lóni.

Hornsskriður eru stórkostleg göngu- og reiðleið, sem liggur í ótal krókum milli stórra bjarga, er fallið hafa úr 600 metra háu og snarbröttu fjallinu. Þetta var þjóðleiðin milli Hornafjarðar og Lóns, þegar Almannaskarð var lokað vegna fanna. Hér má sjá ótal litbrigði sjaldgæfra bergtegunda. Framundan Kastárdal eru leifar af verzlunarstaðnum í Papósi. Hann var notaður af Austur-Skaftfellingum frá 1864 fram undir aldamótin 1900, þegar Höfn í Hornafirði tók við sem verzlunarstaður.

Byrjum við þjóðveg 1, þar sem hann liggur úr Hornafirði upp í Almannaskarð. Þar heitir Dys, er göturnar liggja af veginum og út að Horni. Við förum meðfram Skarðsbrekkum og út fyrir Litlahorn, þar sem við komum að Horni. Frá bænum förum við út að Hafnartanga, þar sem Hornsskriður byrja. Austast heitir Brunnhorn. Þaðan er greiðfært framhjá Kastárdal að Syðra-Firði. Stutt er að þjóðvegi 1.

16,2 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Austursandur. Endalausidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort