Hornsteinn í tilverunni

Greinar

Náttúruminjasafn Íslands er að hluta í nokkrum óvistlegum kompum við Hlemmtorg, en að mestu leyti niðri í kössum. Bráðlega verður því endanlega lokað, því að húseigandi þarf að koma þar fyrir gistiheimili. Þetta er einstæð umgerð náttúruminja á Vesturlöndum.

Virðingarleysi menntaráðuneytis og Alþingis við íslenzkar náttúruminjar endurspeglast í því, að Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki státar af nothæfu náttúruminjasafni. Innan um öll monthús ríkisvaldsins er ekki fjárhagslegt rými fyrir náttúruminjasafn.

Ekki stafar þetta af, að samband manns og náttúru sé eða hafi verið minna hér á landi en annars staðar á Vesturlöndum. Þvert á móti er öll saga þjóðarinnar samofin náttúrunni í blíðu og stríðu. Við höfum haft og höfum enn þá sérstöðu að búa í landi, sem er enn í mótun.

Á síðustu árum hefur þjóðin verið að vakna til vitundar um náttúruna og ganga á vit hennar. Ferðalög um hálendið eru orðin eitt af fremstu áhugamálum þjóðarinnar. Fólk fer um ósnortin víðerni á tveimur jafnfljótum, á hestbaki, á hjólum, í fjórhjóladrifsbílum og á vélsleðum.

Á ferðum þessum hafa menn lesið í náttúruna, fræðst um fjölbreyttan og litskarpan gróður hálendisins, lesið í jarðlög frá misjöfnum tímum og aðstæðum, virt fyrir sér sveitir fugla og skordýra og staðið í undrun andspænis risavöxnum gljúfrum, fossum og hömrum.

Þjóðin hefur komið til baka reynslunni ríkari. Menn hafa komizt í tæri við tign og dulúð öræfanna. Síazt hefur inn virðing fyrir víðerni landsins, sem ekki hefur skilað sér til ráðamanna þjóðarinnar. Fólk hefur á nýjan leik gert náttúruna að hornsteini í tilveru sinni.

Þetta endurspeglast í skoðanakönnunum. Helmingur þjóðarinnar, 45%­60% eftir orðalagi spurninga, er jákvæður í garð umhverfisverndar, til dæmis þegar spurt er um orkuver við Eyjabakka eða Kárahnjúka. Að baki þessum tölum er mikil viðhorfsbreyting á skömmum tíma.

Að vísu eigum við nokkuð í land til að verða eins vistvæn og íbúar Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem 60­80% fólks er samkvæmt skoðanakönnunum jákvætt í garð skilgreindra þátta umhverfisverndar. Við erum um það bil 15 prósentum og hálfum áratug á eftir.

Ekkert getur komið í veg fyrir, að Íslendingar fylgi í humátt á eftir vestrænum auðþjóðum, jafnvel þótt ráðamenn okkar prédiki, að þjóðin hætti að geta skaffað, ef hún fái of mikinn áhuga á umhverfismálum. Sultaráróður stjórnvalda hættir smám saman að hafa áhrif.

Menn vita af fenginni reynslu, að hvalaskoðun gefur margfalt meiri tekjur en hvalveiði. Menn eru smám saman að átta sig á, að ekki felst efnahagsleg byrði í að gæta hagsmuna náttúrunnar. Við erum farin að læra af þjóðum á borð við Svisslendinga og Þjóðverja.

Svisslendingar hafa losað sig við öll sín álver og eru grátfegnir, enda vegnar þeim betur en nokkru sinni fyrr. Í Alpalöndum dettur engum lengur í hug að reisa risavaxnar stíflur með breytilegri vatnsborðshæð. Norðmönnum dettur bara í hug að láta fremja slíkt á Íslandi.

Baráttan gegn eyðingu Eyjabakka sameinaði nývöknuð öfl umhverfisverndar hér á landi. Baráttan heldur áfram, því að þrautseig eyðingaröfl meðal ráðamanna þjóðarinnar vilja núna reisa stíflur, sem spilla Þjórsáverum sunnan Hofsjökuls og Miklagljúfri norðan Vatnajökuls.

Hafa má til marks um, að eyðingaröflin hafa beðið ósigur, þegar stjórnvöldum finnst vera sjálfsagt, að Íslendingar eigi náttúruminjasafn að hætti siðaðra þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV