Frá Barðsvík á Hornströndum að Látravík við Hornbjarg.
Ótrúlegt er, að byggð skuli hafa verið á litlu klettanesi, þar sem bærinn Bjarnarnes er. Drífandisá fellur í tveimur fossum í sjó fram og er sá neðri 50 metra hár.
Förum frá sæluhúsinu í Barðsvík tvo kílómetra vestur dalinn og síðan þvert norður um dalinn. Þaðan förum við norðvestur á Smiðjuvíkurháls, þar sem við náum 250 metra hæð. Síðan norðaustur af hálsinum niður í Smiðjuvík og áfram niður að sjó. Þaðan förum við um og upp eftir hjalla norður á Smiðjuvíkurbjarg í 140 metra hæð. Þar er lægð, sem hallar inn til lands. Við fylgjum lægðinni um mýrasund og mela fram á brekkubrún austan við álfabyggðina Rauðuborg. Þaðan förum norðvestur í Drífandisdal og yfir ána ofan við efri fossinn við ströndina. Og áfram norðvestur með björgum ofan við ströndina. Við förum yfir Digranes og um Hólkabætur í 140 metra hæð. Síðan neðan við Bjarnarneshæð niður að Bjarnarnesi í Hrollleifsvík. Þaðan um víkina og allbratt um sneiðinga yfir Axarfjall í 240 metra hæð og loks norður og niður í Látravík, þar sem er gitihús.
13,7 km
Vestfirðir
Skálar:
Barðsvík: N66 20.117 W22 14.000.
Látravík: N66 24.641 W22 22.741.
Nálægar leiðir: Almenningsskarð, Sópandi, Bolungarvíkurheiði, Bolungarvíkurbjarg, Göngumannaskörð, Snókarheiði.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort