Spilling blómstrar á fjölmiðlunum. Til skamms tíma greiddu menn stórfé fyrir viðtöl í sumum spjallþáttum sjónvarps eða útlagðan kostnað við utanlandsferðir í sama skyni. Nokkur blöð birtu vínkynningar innflutningsfyrirtækja. Þetta voru hóruhús í fjölmiðlum, sala efnis á vegum hagsmunaaðila.
Alvarlegri var hórdómur lítilla útvarpsstöðva, sem hafa til skamms tíma verið undirlagðar af þessari starfsemi, þótt oft sé erfitt að sjá, hvort fyrirtækið eða starfsmaðurinn er til sölu. Enn verri er Frjáls verzlun, sem selur efni aukablaða sinna svo grimmt, að þar sést ekki frjáls, heiðarleg lína.
Morgunblaðið fer hefðbundnar leiðir dagblaða fyrri tíma, gefur út aukablöð, þar sem efni og auglýsingar fléttast saman og renna sums staðar í samfellda heild. Breyting frá fyrri tíma er, að nú hafa þessi hóruhús sérstaka ritstjórn, en útgefandinn er sem fyrr Árvakur, útgáfufélag Moggans.
Blaðamannafélagið kann í árdaga að hafa tekið á þessum málum, en ekki er það minnisstætt. Enda er félagið einkum skipað frægðarfólki, sem ekki sinnir fréttamennsku, allt frá starfsfólki auglýsinga- og samskiptafyrirtækja yfir í prófarkalesara, þáttastjórnendur og fréttaþuli.
Þeir hafa ekki tíma til að hneykslast á hóruhúsum sínum. Þeim mun meiri tíma hafa þeir til að furða sig á, að fjölmiðlar fylgi reglunni að segja fréttir í botn, þar á meðal nöfn og myndir, sem eru innifaldar í setningunni: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
“Er ykkur ekkert heilagt”, spyr þáttastjórnandi, sem treður marvaðann í spillingunni. Hann er ekki að tala um hóruhúsin, heldur nafn- og myndbirtingar. Enda hefur Blaðamannafélagið heila siðanefnd til að stöðva nafn- og myndbirtingar, en á ekki orð í siðareglum um rekstur hóruhúsa félagsmanna.
Þegar fólk í samskiptaerfiðleikum hleypur frá ungabörnum hver í faðm annars með allt á hælunum, nenna fjölmiðlar ekki að óskapast yfir siðferðinu í þjóðfélaginu. Nei, það eru haldnir spjallráðstefnur í útvarpi um, hversu dónalegt sé að segja fréttir af framhjáhlaupum. Sögumaðurinn og ótíðindin.
Tilgangslítið er að ræða slík mál við vinnuhjú á hóruhúsum fjölmiðlunar. Þar ræður ríkjum hræsni þjóðfélags, sem telur fréttir eðlisvondar og sannleikann allra sagna verstan.
DV