Hótað nýrri lokun.

Greinar

Einokun Ríkisútvarpsins hefur smám saman verið að breytast úr einokun ríkisvaldsins yfir í einokun starfsmanna. Völdin hafa verið að færast frá þingkjörnu útvarpsráði yfir til æviráðinna stjórnenda og starfsmanna og nú síðast einnig til starfsmannafélaga.

Ýmis dæmi eru um þessa tilfærslu Ríkisútvarpsins yfir í sjálfseignarstofnun starfsmanna. Útvarpsráð hefur átt í sívaxandi erfiðleikum með að ná fram meirihlutahugmyndum sínum um mannaráðningar. Og upp á síðkastið eru starfsmenn farnir að taka setu í ráðinu.

Í Ríkisútvarpinu hefur verið búið til frumvarp til laga um, að einokun þess skuli ekki rofin, heldur á formlegan hátt breytt í einokun starfsmanna. Kvennalistinn hefur verið gabbaður til að flytja frumvarpið, sem er vitlausasta plaggið á Alþingi um þessar mundir.

Í viðtölum við starfsmenn Ríkisútvarpsins hefur í vaxandi mæli komið fram af þeirra hálfu sú skoðun, að gagnrýni, til dæmis í lesendabréfum, á störf þeirra innan einokunarinnar feli í sér atvinnuróg. Þarna er samkeppnislaust fólk, sem vill fá frið fyrir gagnrýni.

Frægast er þó, er ráðamenn starfsmannafélaga Ríkisútvarpsins létu starfsliðið stöðva sendingar útvarps og sjónvarps í fjölmiðlaleysinu fyrr í vetur. Þá sannfærðist meirihluti þjóðarinnar um, að hvorki ríkisvaldi né starfsmannafélögum væri treystandi fyrir einokun.

Athyglisvert er, að engir starfsmenn Ríkisútvarpsins eða starfsmannafélög hafa gert tilraun til að sækja fjármálaráðuneytið að lögum fyrir meint vanskil á launum. Samt eru nú liðnir fjórir mánuðir síðan þessir aðilar töldu sér stætt á að stöðva sendingar Ríkisútvarpsins.

Ekki er síður athyglisvert, að nú hótar forvígismaður starfsmannafélaganna nýrri lokun Ríkisútvarpsins, ef ekki verði látin niður falla ákæra ríkissaksóknara á hendur félögunum fyrir stöðvun sendinga útvarps og sjónvarps í fjölmiðlaleysinu fyrr í vetur.

Með hótun forvígismannsins er enn staðfest, að starfsmannafélögum Ríkisútvarpsins er ekki treystandi fyrir einokun þeirra á útvarps- og sjónvarpsrekstri í landinu. Hótun hans ætti að vera alþingismönnum hvatning til að vinda sér í að frelsa útvarp og sjónvarp.

Forvígismaðurinn hélt í síðustu viku fréttamannafund til að búa til tækifæri til að koma ítarlegum og einhliða áróðri í fréttir útvarps og sjónvarps. Þar hófst blekkingarherferð, sem ætlað er að koma því inn hjá fólki, að starfslið þar sæti pólitískum ofsóknum.

Einn helzti fótur ofsóknakenningarinnar var, að starfsmannafélögunum hefði ekki verið birt ákæran. Þá mega margir telja sig ofsótta, því að sakadómarar láta almennt undir höfuð leggjast að birta mönnum ákærur áður en þeir lesa um þær í fjölmiðlum.

Kenningin um ofsóknir er tilraun til að hræða réttarkerfið í landinu frá því að fylgja eftir ákæru, sem er svo alvarlegs eðlis, að brot sæta varðhaldi. Starfsmannafélögin treysta sér hins vegar ekki til að láta reyna á lokunina eftir venjulegum dómsmálaleiðum.

Tímabært er orðið að stöðva breytingu Ríkisútvarpsins yfir í starfsmannaeinokun, ekki með því að efla á ný hina gömlu og úreltu einokun stjórnmálaflokkanna, heldur með því að frelsa útvarp og sjónvarp úr viðjum einokunar. Það er svarið við hinni nýju lokunarhótun.

Jónas Kristjánsson.

DV