Hótel Saga

Veitingar

*****
Grillið sprengdi skalann

Grillið á Hótel Sögu blómstrar sem musteri matgæðinga á þessu hausti. Eftir áralangan vandræðagang fyrir og eftir eigendaskipti að hótelinu er staðurinn skyndilega kominn efst á topp íslenzkra veitinga undir handleiðslu Bjarna Gunnars Kristinssonar matreiðslumanns og Sævars Sigurðarsonar veitingastjóra og vínþekkjara.

Þótt Grillið sé nýklassískt er það ekki steingelt. Ég gef að vísu ekki mikið fyrir fyrirlestrana um, hvernig sýra eða sæta í víni passi við sýru eða sætu í matvælum. Ég held að þessi efnafræði eigi takmarkaða erindi við þá nautn að borða góðan mat. Þeir gefa kannski öryggislausum gestum þá tilfinningu, að þeir séu í góðum höndum á Grillinu. En hráefni og eðlisbragð fá þar að njóta sín í matreiðslu og vínvali að nýfrönskum hætti og það skiptir meira máli.

Gæðin kosta. Grillið er dýrasti matstaður landsins. Þriggja rétta matur kostar 7400 krónur að meðaltali. Sérstakir matseðlar kosta 5900-7500 krónur auk 3500 króna, ef menn taka tilboði um að fá glas af sérvöldu víni með hverjum rétti. Þetta eru frábær vín og því er freistandi að kaupa þau líka. Matur með víni getur því farið upp í 11000 krónur.

Nánast hver réttur á matseðlinum er spennandi. Þar er flaggað sandhverfu og þykkvalúru, dádýrum og akurhænum. Nánast hver réttur var vel heppnaður, allt frá smakkbitum yfir í aðalrétt. Eini veiki punkturinn á öllu kvöldinu var bragðdauft og ekki alveg nógu meyrt hreindýrakjöt.

Að öðru leyti var alls staðar toppeinkunn. Mjúkt kjúklingalifrarmauk með balsamic ediki. Ljúfur laxabiti á steinseljurótarkremi. Sæt kæfa úr portobello sveppum. Laxakæfa og humar vafinn í canneloni pasta. Allir þessir smáréttir voru í senn fallega nýklassískt upp settir og ákaflega bragðgóðir, en ekki geldir eins og víða annars staðar.

Sandhverfa úr Raufarhafnareldi var rétt rúmlega hæfilega elduð, en samt mjúk, borin fram á kartöflustöppu með blaðsalati ofan á og risarækjusósu í kring. Hreindýrasteikin var hæfilega elduð, en hlutlaus og ekki eins góð og hún er heima hjá mér á jólum. Nautalundir og sérstaklega kálfalundir voru hins vegar nánast fullkomnar.

Grillið er einn fárra og ef til vill eini staðurinn, sem bauð frábærlega hæfilega þroskaða osta eftir matinn, gorgonzola, taleggio og d’alembert. Sætir eftirréttir voru frábærir, afar ferskt ísfrauð í þrenns konar útgáfu og hrikalega góðir súkkulaðibúðingar, sem ekki beinlínis eiga erindi í megrunarkúra.

Grillið á Hótel Sögu er samnefnari fyrir lúxus í veitingum. Þar fellur allt í einn og sama farveg glæsibrags, allt frá virðulegum húsakynnum og víðáttumiklu útsýni yfir í frábæra þjónustu og matreiðslu á heimsmælikvarða. Það er gott að vita af svona klassa hér á landi. Í rauninni sprengir Grillið fimm stjörnu skalann, sem notaður hefur verið í þessum flokki greina um veitingahús.

Jónas Kristjánsson

DV