Hraðari vítahringur

Greinar

Einna veikasti hlekkur valdsstjórnarinnar er ábyrgðarlaus stjórn á fjármálum ríkisins. Skuldabyrði hins opinbera hefur vaxið hraðar í tíð þessarar en annarra ríkisstjórna á undanförnum áratugum. Er nú hlutfall ríkisskulda af árlegri landsframleiðslu komið í 55%.

Jafnframt hefur dregið úr getu ríkisins til að endurgreiða skuldir sínar, þegar þær falla í gjalddaga. Nú er svo komið, að aldrei er greidd króna eða dollar af eldri skuld, nema með fjármagni frá nýjum lánum. Þetta er orðið að vítahring, sem hlýtur að enda með skelfingu.

Í næsta mánuði á ríkið að greiða tíu milljarða króna vegna fimm ára spariskírteina frá 1990. Ekki hefur verið safnað einni krónu upp í þessa greiðslu. Ekki verður hægt að afla peninganna með nýrri lántöku innanlands, því að hún mundi hækka vexti og verðbólgu í landinu.

Málið verður leyst eins og oft áður með því að taka lán í útlöndum. Vegna lélegrar fjármálastjórnar hefur traust landsins á erlendum peningamarkaði rýrnað, svo að vextir á slíkum lánum fara hækkandi. Þannig eykst vaxtakostnaður meira en sem nemur hækkun skulda.

Engin merki eru um bilbug á hinni vondu fjármálastjórn. Fjárlagafrumvarp þessa árs var afgreitt með meiri halla en venja er. Samkvæmt þjóðhagsspám fyrir árið mun rekstrarkostnaður hins opinbera vaxa meira á þessu ári en hann gerði í fyrra. Munurinn er um 50%.

Ef fjármálastjórn ríkisins helzt í eins áhyggjulausum og ábyrgðarlausum stíl og verið hefur á undanförnum árum og eins og er um þessar mundir, verða Íslendingar einfaldlega gjaldþrota eins og Færeyingar urðu í fyrra og eins og Nýfundnalendingar urðu fyrr á öldinni.

Stjórnvöld hafa löngum reynt að hamla gegn þessu með því að magna skattheimtu. Á slíku eru takmörk eins og flestu öðru. Ljóst má þó vera, að tilfinnanlegar skattahækkanir verða eitt helzta einkenni stjórnmála síðustu áranna fyrir ríkis- og þjóðargjaldþrot Íslands.

Við erum ekki ein um vandamálið, þótt hraðinn á vítahringnum sé meiri hér en í flestum nálægum ríkjum. Vandi okkar er meiri en iðnaðarþjóðanna, af því að efnahagsgrundvöllur okkar er ekki eins traustur og þeirra. Við byggjum hag okkar á sveiflugjörnum sjávarútvegi.

Við höfum svo oft teflt á tæpasta vað í veiðiheimildum, að flestir fiskistofnar eru á undanhaldi og sumir þeir mikilvægustu eru í bráðri hættu. Við getum því engan veginn búist við, að happdrættisvinningar upp úr sjó muni frelsa okkur frá afleiðingum fjármálaóstjórnar.

Í meðferð Alþingis á fjárlögum og lánsfjárlögum þessa árs kom skýrt fram, að þar er ekki pólitískur vilji til að skera velferðarkerfi atvinnulífsins. Hið sama kom enn skýrar í ljós milli jóla og nýjárs, þegar landbúnaðarráðherra var selt sjálfdæmi um tolla á innfluttum mat.

Þótt ríkið lifi um efni fram, telja fjölmennir hópar ríkisstarfsmanna sig vera vanhaldna í tekjum. Sjúkraliðar eru búnir að vera í löngu verkfalli og kennarar eru að undirbúa annað slíkt. Samt má ekki nefna þá fimmtán milljarða, sem landbúnaður kostar þjóðina árlega.

Við erum að feta í spor Færeyinga. Hvorki þjóðin sjálf né valdhafar ríkisins vilja horfast í augu við, að núverandi rekstrardæmi lýðveldisins gengur ekki upp. Því síðar sem augu manna opnast fyrir vandræðunum, þeim mun sársaukafyllri verða tilraunir til lækningar.

Næstu þrjá mánuði verður lánsfjárþörf ríkissjóðs rúmlega 18 milljarðar að mati fjármálaráðuneytisins. Hraðinn á vítahringnum verður sífellt meiri og meiri.

Jónas Kristjánsson

DV