Hræddir og trylltir

Greinar

Bandaríkjamönnum hefur tekizt að sameina Íraka gegn sér, enda er ástandið í landinu orðið verra en það var á dögum Saddam Hussein. Stríðsglæpasveitir bandaríska hersins hafa drepið meira en 10.000 óbreytta borgara, að meirihluta konur og börn. Jafnframt hafa þær svívirt helgidóma múslima.

Það hlýtur að valda mörgum Íslendingum áhyggjum, að landsfeður okkar skuli ekki játa eins og ýmsir aðrir landsfeður, að þeir hafi á fölskum forsendum verið ginntir til stuðnings við stríðið. Þeir eru því enn aðilar að stríðsglæpunum í Írak og ataðir blóði saklausra borgara.

Sjítar eru meirihlutaþjóð Íraks. Þeir voru andstæðingar Saddam Hussein og eru núna andstæðingar George W. Bush. Þeir hafa öldum saman hatað súnníta, sem Hussein studdist við. Nú hefur landstjórn og herstjórn Bandaríkjamanna gengið svo fram af sjítum, að þeir gefa blóð til að bjarga súnnítum.

Lýsingar af framgöngu Bandaríkjamanna gegn óbreyttum borgurum eru smám saman farnar að síast inn í vestræna fjölmiðla. Þær gefa ófagra mynd af hræddum og trylltum morðingjum í einkennisbúningi, sem sjá óvini í hverju fleti, ryðjast inn í íbúðarhús og drepa allt kvikt, sem þeir sjá.

Þessar aðferðir dugðu ekki í Víetnam og þær munu ekki duga í Írak. Þær eru dæmigerðar fyrir hernámslið, sem hefur misst tökin á stöðunni og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Það hefur gefizt upp við að reyna að vinna hug og hjörtu fólks með að byggja upp innviði landsins eftir eyðileggingu stríðsins.

Fólk verður ekki frelsað með því að drepa ástvini þess. Fólk verður ekki fengið til að snúast til fylgis við vestrænt lýðræði með því að svívirða gróna siði þess og venjur. Fólki verður ekki snúið til fylgis við málstað með neinum þeim aðferðum, sem bandaríski herinn hefur í vopnabúri sínu.

Fyrir innrás var Írak ekki lengur hættulegt nágrönnum sínum, hvað þá Vesturlöndum. Eftir eins árs hernám er landið orðið að gróðrarstíu ofsatrúar og haturs, uppsprettu hryðjuverka framtíðarinnar á Vesturlöndum. Öll er sú ógæfa að kenna krossferð trúarofstækismanna í stjórn Bandaríkjanna.

Trúarofstækismenn hafa tekið völdin í heiminum, kristnir, gyðinglegir og íslamskir. George W. Bush og Tony Blair eru af þessum toga eins og Ariel Sharon og Moktada-al-Sadr. Ef Bush heldur velli í næstu kosningum, mun þetta skelfilega ofstæki halda áfram að valta yfir okkur af auknum þunga.

Við verðum að spyrja aftur og aftur þeirrar spurningar, hvort við eigum að halda áfram að styðja ragnarök ofstækis eða leggja lóð okkar á vogarskál almenns trúarbragðafriðar.

Jónas Kristjánsson

DV