Nýir vextir nýrrar ríkisstjórnar af spariskírteinum ríkissjóðs sýna óttaslegin vinnubrögð, sem minna á fyrstu ráðstafanir hennar í efnahagsmálum. Fyrst er reynt að snyrta verkin í veikburða viðleitni við að blekkja. Svo er öllum vanda meira eða minna frestað.
Uppruni flestra þyngstu vandamála stjórnarinnar er, að hún tók við óvenju hastarlegu sukki í fjármálum ríkisins og neitaði algerlega að taka á því með niðurskurði og sparnaði í ríkisrekstri. Þess vegna þarf hún að ná í meiri tekjur, meðal annars með spariskírteinum.
Áður hafði verið ráðgert að ná hálfum öðrum milljarði í útgáfu nýrra spariskírteina. Fyrri ríkisstjórn spillti þeim möguleika í september í fyrra, er hún vildi þykjast fyrir fólki með því að sýna, að raunvextir færu lækkandi. Hún gerði skírteinin þar með illseljanleg.
Hingað til hefur aðeins náðst í um það bil 15% af hálfa aðra milljarðinum. Afganginn af skírteinunum hyggst nýja stjórnin selja með því að gera þau girnilegri á markaðinum. Það gerir hún auðvitað með því að hækka raunvextina, en það er einmitt feimnismál.
Fyrst sagði fjármálaráðherra, kotroskinn að venju, að ekki þyrfti að hækka vextina nema lítillega, af því að selja mætti skírteinin með afföllum í staðinn. Í fjölmiðlum var honum þá vinsamlega bent á, að afföll af skuldaviðurkenningum jafngiltu illa dulbúnum vöxtum.
Þess vegna hefur nú afföllunum verið frestað. Spariskírteinin fara á flot með tiltölulega lítilli hækkun raunvaxta. Ef þeir reynast ekki nógu háir til að selja bréfin eins grimmt og ríkisstjórnin telur þurfa, verður enn að hækka vextina, hreina eða dulbúna sem afföll.
Raunvextirnir voru hækkaðir úr 6,5% í 7,2%8,5%. Sagt er, að það dugi lífeyrissjóðunum, sem ætlað er að reiða fram megnið af peningunum. Spurningin á þó ekki að vera, hvað dugi þeim, heldur hvernig þeir geti bezt ávaxtað féð, sem fólk er að safna til elliáranna.
Lífeyrissjóðirnir munu vafalaust athuga fyrst, hvort skírteinin seljast nógu vel á þessum kjörum. Þannig mun markaðurinn leiða í ljós, hverjir raunvextir þurfa að vera. Síðan munu vextir húsnæðislána fylgja á eftir. Og þá er komið að einu feimnismáli stjórnarinnar enn.
6,5% húsnæðisraunvextir skiptast nú þannig, að húseigendur greiða 3,5% og hið opinbera niðurgreiðir 3% á móti, fyrir hönd skattgreiðenda. Ljóst er, að hækkun raunvaxta, hversu mikil sem hún verður, mun endurspeglast í beinum eða niðurgreiddum húsnæðisvöxtum.
Raunvaxtadæmið felst ekki í ógáfulegum vangaveltum um, hvaða raunvextir nægi lífeyrissjóðunum og hvort fundin séu svokölluð hlutleysismörk raunvaxta af spariskírteinum, það er að segja næsta stig áður en þeir fara að hafa áhrif á aðra vexti í þjóðfélaginu.
Stóra málið er auðvitað framboð og eftirspurn peninga. Þegar ríkið ryðst af miklum þunga inn á þennan markað og ætlar á hálfu ári að ná í 1,3 milljarða að láni, þar af 1,2 milljarða umfram innlausn eldri lána, hlýtur óhjákvæmilega eitthvað mikið undan að láta.
Þessa merku staðreynd er ekki unnt að galdra brott með sjónhverfingum. Engu máli skiptir, hversu mjög ríkisstjórnin reynir að blekkja fólk með því að snyrta vandamálið og fresta því til hausts. Hinni geigvænlegu fjárþörf stjórnarinnar hlýtur að fylgja keðjuverkun.
Hrædd ríkisstjórn, sem hagar fjármálum sínum eins illa og þessi gerði strax fyrir fæðingu, hlýtur að sprengja upp raunvextina, sem voru þó óþægilega háir fyrir.
Jónas Kristjánsson
DV