Spergilsúpan var sami hveitigrautur og ég fékk í fyrra. Lambakjötið var vel gegnumsteikt, borið fram með þungri béarnaise-sósu og lélegum frönskum. Eldhúsið á Geysi í Vesturgötu er eins úrelt og það var í fyrra. Eins úrelt og eldhús var á íslenzkum veitingahúsum fyrir þrjátíu árum. Eldamennskan á Geysi er ekki beinlínis vond, en hún er hræðilega gamaldags. Verð í hádegi er frambærilegt, 1.600 krónur fyrir súpu og aðalrétt. Fyrir slíkt verð má þó borða á ýmsum betri stöðum. Húsakynni eru frambærileg og þjónusta góð. Stemmningin er fín, því að Íslendingar eru illu vanir og flykkjast hingað.